Fyrsta meistaraverkefnið unnið alfarið hjá Iceprotein

Lilja Rún Bjarnadóttir varði meistararitgerð í matvælafræði frá Háskóla Íslands í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki.
Lilja Rún Bjarnadóttir varði meistararitgerð í matvælafræði frá Háskóla Íslands í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki.

Lilja Rún Bjarnadóttir varði meistararitgerð í matvælafræði frá Háskóla Íslands í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki sl. mánudag. Verkefnið var alfarið unnið við Iceprotein, í samstarfi við Kjötafurðarstöð KS, Sláturhús Kaupfélags Vestur-Húnvetninga, Ísaga og Matís. Um er að ræða stóran áfanga í sögu Iceprotein sem ber vitni um gróskuna í lífhagkerfi Skagafjarðar.

Verkefni Lilju Rúnar ber yfirskriftina „Geymsluþol á fersku folaldakjöti“ og var þá kannað áhrif umbúða, lofttegunda og kælingar á geymsluþol fersks folaldakjöts.

„Kjötinu var pakkað í loftskiptar umbúðir og þrjár mismunandi gasblöndur prófaðar, 100% koltvíoxíð (CO2), 50% koltvíoxíð (CO2) + 50% köfnunarefni (N2) og 25% koltvíoxíð (CO2) + 75% súrefni (O2). Kjötið var geymt við -1°C í allt að 8 vikur,“ segir um framkvæmd rannsóknarinnar, í fréttatilkynningu. Þá voru eiginleikar og gæði folaldakjöts metið með að mæla styrkleika gastegunda í umbúðum, hitastig, sýrustig, efnainnhald (vatn, salt, prótein, kollagen og fitu), oxun fitu, áferð, suðuheldni, lit og vöxt örvera í kjötinu. Einnig var framkvæmt skynmat. 

„Folaldakjöt geymt við -1°C í loftskiptum umbúðum, þar sem súrefni er ekki til staðar geymist, vel í a.m.k. 8 vikur. Vöxtur örvera var langt undir viðmiðunarmörkum og hvorki bar á þránun né breytingum á vatnsheldni við suðu, efnasamsetningu eða áferð. Kjöt í súrefnissnauðum umbúðum dökknaði í sumum tilfellum mjög mikið á yfirborði en þegar nýskorið yfirborð komst í snertingu við andrúmsloft fékk það aftur eftirsóknarverðan rauðan kjötlit. Álykta má að pökkun folaldakjöts í loftskiptar umbúðir þar sem súrefni er útilokað sé öruggur og góður kostur til að geyma kjötið ferskt við kældar aðstæður t.d. við útflutning, en henti síður í smásölu vegna þess hve mikið kjötið dökknar,“ segir í rannsóknarniðurstöðum Lilju Rúnar. 

Leiðbeinendur voru Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir og Guðjón Þorkelsson prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur á Matís. Prófdómari: Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið var styrkt Þróunarsjóði KS, FISK Seafood, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannsóknasjóði HÍ og Vaxtarsamning SSNV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir