Nóg af verkefnum framundan hjá Fornverkaskólanum

Tekið til hendinni í Fornverkaskólanum. MYND AÐSEND
Tekið til hendinni í Fornverkaskólanum. MYND AÐSEND

Það er óhætt að segja að það verður nóg að gera hjá Fornverkaskólanum á árinu. Í lok apríl ætlum við að bregða fyrir okkur betri fætinum og taka stefnuna austur á Seyðisfjörð, þar sem Fornverkaskólinn ætlar að kynna torfarfinn fyrir nemendum LungA lýðskóla. Námskeiðið verður að stórum hluta í máli og myndum og ef veður verður skaplegt og sæmilegt færi verður mögulega hægt að grípa í skóflu og undirristuspaða til ánægju og yndisauka. Setji snjór og vetrarfærð okkur skorður er e.t.v. hægt að fara í tilraunaverkefni með snjóhnausa og streng.

Þann 10. ágúst verður haldinn opinn dagur á Syðstu-Grund, þar sem ætlunin er að lagfæra grind og þekja yfir gamla fjósið sem stendur á grundinni sunnan við bæinn. Í fyrrasumar voru veggir gamla fjóssins endurbyggðir á torfhleðslunámskeiði og nú á að ljúka verkinu. Þátttaka krefst engrar fyrri reynslu í torfhleðslu og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Því er tilvalið tækifæri fyrir þá sem langar að spreyta sig í torfhleðslu og þakgerð að koma við, taka til hendinni, spjalla og fræðast um torfhleðslu. Léttar kaffiveitingar verða í boði. Þeir sem vilja taka þátt eru vinsamlegast beðnir að skrá sig á viðburðinn á fésbókarsíðu Fornverkaskólans.

Dagana 28.-30. ágúst næstkomandi verður haldið torf-hleðslunámskeið á Tyrfingsstöðum á Kjálka. Verkefnið sem liggur fyrir að þessu sinni er að lagfæra og endurnýja vegg inni í gömlu híbýlunum. Fullt er orðið á námskeiðið og það er skemmtilegt frá því að segja að einungis tók um þrjár klukku-stundir að fullbóka námskeiðið. Það er greinilega rífandi stemmning og tilhlökkun yfir torfi þessa dagana!

Annað torfhleðslunámskeiðið verður haldið dagana 31. ágúst til 2. september á Minni-Ökrum í Blönduhlíð. Stefnt er að því að laga vegg í gamla fjósinu á staðnum. Ekki hefur verið haldið torfhleðslunámskeið þar áður, það er því spenna í skipuleggjendum og við vonum að undirtektir til þátttöku verði eins góðar og á námskeiðinu á Tyrfingsstöðum!

Opinn dagur á Syðstu-Grund í Blönduhlíð 10. ágúst.

Torfhleðslunámskeið á Tyrfingsstöðum 28. - 30. ágúst

Torfhleðslunámskeið á Minni-Ökrum 31. ágúst - 2. september.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir