Nú safna kjuðarnir ryki

Ágúst, minn elsti og besti vinur, skoraði á mig um daginn að taka við pennanum af sér og nú er komið að skiladögum. Ég heiti Ómar sonur Árna S. Jóhannssonar og Bryndísar R. Ármannsdóttur, fyrrverandi kaupfélagsstjórahjóna, en þau bjuggu á Blönduósi frá 1962 til 1988, að einu ári á Hólmavík undanskildu.

Ég fæddist á laugardegi, 13. mars 1971, í tæka tíð fyrir íþróttirnar í sjónvarpinu, en rétt áður en enska knattspyrnan byrjaði þennan dag, lét Unnar tvíburabróðir minn á sér kræla og skyndilega vorum við systkinin orðin fimm en ekki fjögur eins og áætlað var. Pabbi brunaði í Sæmundarhlíðina og sótti Siggu frænku sína í Sólheimum, Sigríði Þorleifsdóttur, sem aðstoðaði fjölskylduna fyrstu vikurnar eftir þessa óvæntu fjölgun.

Þá bjó fjölskyldan á efri hæðinni á Húnabraut 40 en þremur árum seinna , árið 1974, fluttum við á Holtabraut 2, í kaupfélagsstjórahúsið skrýtna sem Maggi Jónsson frá Kagaðarhóli teiknaði. Þaðan var mjög stutt í allt: til Gústa vinar míns, í skólann, á íþróttavöllinn og í kaupfélagið.

Á Blönduósi ólst ég upp með fótbolta á tánum og ég stunda hann enn hátt á fimmtugsaldri. Tónlistaráhuginn varð áberandi á unglingsárunum. Ég spilaði á trommur í hljómsveitum fram á þrítugsaldurinn en lokaspretturinn á ferlinum var með Unnari bróður og Ívari Bjarklind í hljómsveitinni MÍR, sem gaf út eina plötu. Eftir það hafa kjuðarnir safnað ryki og nú læt ég mér nægja að glamra á kassagítar á nokkurra mánaða fresti.

Við bjuggum á Holtabrautinni til 1988 en þá fluttum við til Reykjavíkur, foreldrarnir og við þrír bræðurnir. Systur mínar, Lilja og Árný, urðu eftir og búa enn á Blönduósi.

Við bræðurnir héldum samt áfram í MA og útskrifuðumst 1991, eins og lög gerðu ráð fyrir. Ég átti alla tíð auðvelt með að læra og hafði gaman af lestri og grúski, en eftir stúdentspróf varð erfiðara að feta beinu brautina. Fróðar kerlingar vilja meina að kvíði sé ættarfylgja margra í móðurættinni og hann hefur alltaf verið hluti af mér, hvort sem er í formi feimni eða fiðrilda í maganum fyrir fótboltaleiki og samræmd próf. Eftir tvítugt lagðist hann á mig af alvöru. Námsferillinn varð því mun snubbóttari en ég bjóst við en mér tókst þó að ljúka ári í mannfræði og öðru í sagnfræði í HÍ eftir nokkrar atlögur.

Starfsferillinn hófst í unglingavinnunni á Blönduósi en tvö skemmtileg sumur var ég í Pakkhúsinu hjá Lalla Jóns, ásamt Ásgeiri Valgarðs vini mínum o.fl. góðum görpum. Fyrir sunnan vann ég eitt sumar hjá Goða, nokkur hjá Jötni og svo nokkur ár hjá Ingvari Helgasyni við að selja búvélavarahluti.

Með aðstoð Snorra Ingimarssonar, þess góða geðlæknis og núverandi bónda í Ásgarði í Blönduhlíð, fékk ég tímabundna vinnu á Borgarbókasafninu sem fljótlega varð að sumar- og hlutastarfi og fullt starf að lokum. Þarna leið mér loks eins og fiskur í vatni, innan um skruddur gamlar og nýjar, í rólegu andrúmslofti. Fljótlega fann ég líka lífsförunaut minn innan veggja safnsins. Konan mín, Gurra, vinnur enn hjá Borgarbókasafninu en ég færði mig til og hóf störf hjá Tækniskólanum haustið 2008 en þá var hann að hefja starfsemi sína eftir sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans á Háteigsvegi. Þar er ég sumsé bókavörður með meiru, áfram umkringdur bókum og góðu samstarfsfólki en einnig skemmtilegum nemendum af öllu tagi.

Áður birst í 17. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir