Plássið til að skapa

Atvinnu-mamma mín er sjúkraþjálfari en heima-mamma mín er  m.a. listakona, föndrari, söngkona, skíðakona og hlaupari. Atvinnu-pabbi minn er læknir en heima-pabbi minn er m.a. smiður, snjóhúsameistari, músík-elskur, golfari, snjóbretta/skíðagarpur og Manchester United maður.

Þegar ég horfi til baka á uppvaxtarárin mín einkenndust þau mikið af því hver mamma og pabbi voru heima fyrir og þegar ég skoða listann hér að ofan sé ég að ég hef sjálf tileinkað mér margt af því sem foreldrar mínir lögðu fyrir mig sem barn. Einn veigamesti parturinn sem hefur mótað líf mitt hvað mest er sköpunargleðin og framkvæmdagleðin sem ég var svo sannarlega hvött áfram í að þróa með mér. Ég á ótal minningar frá rigningardögum t.d. þar sem lagt var á borðið fyrir framan mig blað og pensill, pappakassi og lím eða eitthvað annað sem ég mátti föndra með. Ekki skemmdi fyrir þegar mamma settist niður við hliðina á mér og fór að dunda eitthvað líka.

Ein af þeim minningum sem er mér hvað kærust er þegar foreldrar mínir ákváðu að smíða lítið hús handa okkur systrunum, en við vorum þá fjögurra og sjö ára. Pabbi, mamma ég og Elva systir eyddum frítímanum okkar saman í bílskúrnum að smíða og skreyta húsið okkar meðan við hlustuðum á tónlist og borðuðum nestið sem tekið var til áður en “vinnan hófst”. Sjálfsagt krafðist þetta færni og útsjónasemi sem aðeins fullorðinn gat búið yfir en við systur fengum engu að síður að vera með í ferlinu og í leiðinni vorum við partur af því að sjá hugmynd í framkvæmd og fengum svo að njóta góðs af niðurstöðunni.

Ár og dagar hafa liðið og í dag er ég fatahönnuður, knattspyrnukona, tómstundafulltrúi í félagsmiðstöð og nýjasti titillinn minn er móðir. Það eru held ég fá hlutverkaskiptin sem kollvarpa tilverunni jafn mikið og að verða móðir ómótaðs einstaklings. Verandi vön hraða dagslegs lífs nútímans hef ég þurft að stoppa margoft til að íhuga minn gang varðandi þetta mikilvæga hlutverk og hvernig daglegt líf hefur breyst frá því ég var lítil. Ég hef verið að upplifa í gegnum starf mitt tilveru unglinga og vandamálin sem geta fylgt því að takast á við daglegt líf, væntingar, kvíða, lágt sjálfsálit og allt hitt sem mögulega herjar á okkur á unglingsárunum.

Í vinnunni hef ég hef lagt fyrir ótal skapandi og skemmtileg verkefni sem hafa í fyrstu verið mætt með miklum áhuga hjá unglingunum en einhvern veginn hefur vantað eftirfylgni, metnað og framtaksemi hjá þeim til að framkvæma og klára verkið. Mín persónulega reynsla er sú að þegar framkvæmdin á hugmyndinni fer í gang hefst svo mikilvægt lærdómsferli sem er ofsalega sjálfstyrkjandi. Það að klára hafið verk með því að takast á við og leysa þau vandmál sem á veginum verða er held ég vanmetið ferli í því að styrkja einstaklinginn innan frá. Þetta geta verið frá smávægilegustu verkefnum upp í þau stærstu en auðvitað hefst þetta allt saman á því að byrja á byrjuninni og taka sér ekki of stórt verk fyrir hendur. Árangurinn er ekki aðal atriðið heldur að fá tækifæri til að takast á við viðfangsefnið, gera mistökin og læra af þeim.

Að sjálfsögðu eru ekki allir eins og allir hafa sinn útgangspunkt útfrá sínum uppruna og áhugamálum. Hjá mér var það hönnun sem varð fyrir valinu og það gefur auga leið að í þeim bransa þarf maður að beita mjög skapandi hugsun og öðlast ákveðna færni til að verða farsæll. Það þýðir hins vegar ekki að skapandi hugsun eigi ekki heima allstaðar annarstaðar líka, á öllum vinnustöðum, í öllum verkefnum og skemmtunum. Að mínu mati eru allir skapandi á einhvern hátt, því sköpun fyrir mér er þrískipt: 1. að sjá vandamál eða fá hugmynd. 2. Að hugsa síðan í lausnum. 3. Að láta svo verkin tala.

Ég vil hvetja alla til að íhuga á hvaða sviði eða hátt þeir beiti skapandi hugsun skv. óformlegu skilgreiningu minni hér að ofan og finna ánægjuna af því að hugsa jákvætt um sjálfan sig, við gerum oftast allt of lítið af því. Síðast en ekki síst langar mig aðeins að leiða hugann að því hvað við foreldrarnir getum gert til að standa með börnunum okkar og ég held að eitt atriðið gæti verið að gefa þeim plássið til að skapa. Gerum þeim kleift að takast á við áþreifanleg verkefni og verum tilbúin að taka þátt í ferlinu með þeim.

Mig langar að lokum að þakka mömmu og pabba fyrir að sýna því áhuga sem ég hafði áhuga á og fyrir að hafa kennt mér að finna sjálf lausnir til að takast á við þau vandamál sem á vegi mínum verða.

Takk fyrir mig.

Áður birt í 15. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir