Selatalningin mikla 2016

Jóhann í felum fyrir selum/Mynd: BG
Jóhann í felum fyrir selum/Mynd: BG

Síðastliðinn föstudag, 21. júlí, fór fram Selatalningin mikla 2016 en um árlegan viðburð er að ræða. Talningin fór fram á Vatnsnesi og Heggstaðanesi á Vestur-Húnavatnssýslu. Selasetur Íslands hélt utan um talninguna.

Fjöldi sjálfboðaliða, víðsvegar að úr heiminum í bland við heimamenn, tóku þátt í talningunni sem er liður í gagnaöflun sem Selasetur Íslands hefur haldið utan um frá árinu 2007. Vegalengdirnar sem sjálfboðaliðarnir og vísindamennirnir frá Selasetrinu gengu voru frá 2-8 kílómetrar meðfram strandlengjunni. Veðrið var ekki upp á sitt besta en bleyta einkenndi daginn en er talningafólk kom til baka beið þeirra heitt kakó og kleinur og var fólk því fljótt að gleyma volkinu. Blaðamaður Feykis slóst í för með einum af vísindamönnum Selasetursins, Jóhanni Garðari Þorbjörnssyni en þeir gengu lengstu leiðina á Vatnsnesinu. Talsverður fjöldi sela lágu í makindum sínum eða svömluðu í sjónum á þessari leið en ekki voru það einu dýrin sem urðu á vegi blaðamannsins og Jóhanni. Lafhrædd hagamús skoppaði í veg fyrir þá, kríur sveimuðu í kring með tilheyrandi stríðsöskrum, tvö lömb, sem helst minntu á tvíburastelpurnar í kvikmynd Stanley Kubrick, The Shining, störðu frosin á talningamennina og máfur flaug löturhægt svo nálægt blaðamanninum að hann freistaðist næstum því til að klappa honum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir