Sigríður áfram formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins

Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra og Sigríður formaður kjördæmisráðs. MYND: XD.IS
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra og Sigríður formaður kjördæmisráðs. MYND: XD.IS

Aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi var haldinn á Laugum í Sælingsdag um nýliðna helgi. Á fundinum var Sigríður Ólafsdóttir, Húnaþingi vestra, endurkjörin formaður kjördæmisráðs.

Ásamt henni voru kjörin í stjórnina; Jón Daníel Jónsson, Skagafirði, Maggý Hjördís Keransdóttir, Patreksfirði, Carl Jóhann Gränz, Akranesi, Bryndís Ásta Birgisdóttir, Súgandafirði, Þorsteinn Pálsson, Borgarfirði, Björn Ásgeir Sumarliðason, Stykkishólmi og Guðlaugur Skúlason, Sauðárkróki.

Á xd.is segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, utanríkisráðherra og oddviti Sjálflfstæðisflokksins í kjördæminu, hafi ávarpað fundinn ásamt Teiti Birni Einarssyni þingmanni kjördæmisins. Um kvöldið var slegið upp í heljarinnar veislu á staðnum þar sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var heiðursgestur og Brynjar Níelsson stýrði veilsunni af sinni alkunnu snilld.

Á fundinum var samþykkt stjórnmálaályktun þar sem meðal annars er komið inn á að atvinnufrelsi og eignarréttur sé órjúfanlegur hluti frjáls samfélags og forsenda þess að hægt sé að tryggja jöfn tækifæri í landinu. Að öflugir innviðir og einfalt og skilvirkt regluverk séu forsenda kröftugs atvinnulífs og að hið opinbera eigi að halda sig til hlés en treysta á krafta einstaklingsins og einkaframtaksins til að skapa samfélag sem blómstrar.

Þá kom fram að það sé von kjördæmisráðsins að ríkisstjórnin sýni það í verki að henni sé alvara með að styðja við helsta forgangsmál stjórnarinnar; að ná niður verðbólgu og vaxtastigi.

Nánar má lesa um ályktanir fundarins hér >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir