Stólastúlkur mæta FH á gervigrasinu klukkan fimm í dag

Donni þjálfari í pollagallanum á vellinum síðastliðinn laugardag. Það var ekki færi fyrir takkaskó á þessum tímapunkti. MYND: ÓMAR BRAGI
Donni þjálfari í pollagallanum á vellinum síðastliðinn laugardag. Það var ekki færi fyrir takkaskó á þessum tímapunkti. MYND: ÓMAR BRAGI

Leik Tindastóls og FH í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna sem fram átti að fara kl. 16:00 í gær var frestað sökum vallaraðstæðna á Króknum í gær. Í leysingum laugardagsins skiluðu snjóalög í Grænuklaufinni sér niður á vallarsvæðið og var gervigrasvöllurinn á floti og ekki leikhæfur. Gærdagurinn reyndist þurr og í dag er sól og fínerí og leikurinn mun fara fram í dag og hefst kl. 17:00.

Sem er reyndar hið besta mál fyrir kuldafælna því spáð er 10 stiga hita og hægri suðvestan átt (ef hún er nú til) seinni partinn og því ættu að vera kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar í dag.

Fyrsti leikur Bestu deildarinnar fór fram í gær á Hlíðarenda þar sem Íslandsmeistarar Vals tóku á móti Akureyringum. Liði Vals er spáð titlinum enn eina ferðina en liði Þórs/KA var spáð þriðja sæti. Valskonur voru 2-0 yfir í hálfleik og höfðu síðan bætt við þriðja markinu áður en Sandra María Jessen lagaði stöðuna fyrir norðanstúlkur. Lokatölur 3-1.

En allir á völlinn klukkan fimm í dag – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir