Styrkja Rauða krossinn um 450.000 kr

Björg Baldursdóttir formaður SSK, Jónína Gunnarsdóttir fráfarandi gjaldkeri, Karl Lúðvíksson frá Skagafjarðardeild Rauðakrossins og Guðný Zoega formaður hennar. Aðsend mynd.
Björg Baldursdóttir formaður SSK, Jónína Gunnarsdóttir fráfarandi gjaldkeri, Karl Lúðvíksson frá Skagafjarðardeild Rauðakrossins og Guðný Zoega formaður hennar. Aðsend mynd.

Aðalfundur Sambands skagfirskra kvenna,  SSK, var haldinn í Melsgili sunnudaginn 23. apríl. Þangað mættu formenn og fulltrúar úr öllum kvenfélögum í Skagafirði ásamt stjórn SSK og fóru yfir starfsemi síðasta árs. Hefð er fyrir því að fá gesti til að flytja erindi og að þessu sinni flutti Kristín Sigurrós Einarsdóttir okkur skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.

Meðal ánægjulegri verkefna á þessum fundi er að afhenda styrk, innkomu af  svokallaðri Vinnuvöku eða basar, sem kvenfélögin í Skagafirði halda árlega og verja ágóðanum til þess að styrkja góð málefni í heimahéraði.

Mikil aðsókn hefur verið á basarinn og kaffihlaðborðið, sem haldið er í Varmahlíðarskóla og erum við kvenfélagskonur mjög þakklátar þeim fjölmörgu sem þangað leggja leið sína, kaupa sér kaffi og jafnvel eitthvað skemmtilegt og gómsætt á basarnum og styrkja í leiðinni gott málefni.

Að þessu sinni var ákveðið að styrkurinn 450.000 kr. rynni til Rauðakrossdeildar Skagafjarðar sem unnið hefur gott og óeigingjarnt starf fyrir samfélagið gegnum tíðina.

Það var fráfarandi gjaldkeri SSK, Jónína Gunnarsdóttir, sem afhenti Guðnýju Zoega, formanni deildarinnar, styrkinn en með Guðnýju mætti á fundinn Karl Lúðvíksson sem kynnti stuttlega í hvað styrkurinn rynni. Mun hann að mestu fara í að endurnýja hjartastuðtæki í Fljótunum, en Rauðakrossdeildin á og hefur umsjón með nokkrum slíkum tækjum í sveitarfélaginu. Þetta er gríðarmikið öryggisatriði fyrir þá sem búa fjarri læknishjálp og getur skipt sköpum. Einnig nýtist þetta fé til námskeiðahalds, en Rauðakrossdeildin hefur mörg undanfarin ár haldið skyndihjálparnámskeið fyrir nemendur 10. bekkjar í grunnskólum sveitarfélagsins án endurgjalds.

Á myndinni sem tekin var af þessu tilefni, eru Björg Baldursdóttir formaður SSK, Jónína Gunnarsdóttir fráfarandi gjaldkeri, Karl Lúðvíksson frá Skagafjarðardeild Rauðakrossins og Guðný Zoega formaður hennar.

Þess má annars geta að  stjórn Sambands skagfirskra kvenna skipa nú Björg Baldursdóttir formaður, Aldís Axelsdóttir varaformaður, Guðrún Kristín Eiríksdóttir gjaldkeri, María Reykdal varagjaldkeri, Valgerður Inga Kjartansdóttir ritari og Sigurlína Kristinsdóttir vararitari.

/AA

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir