Hugsanlega fyrsta slíka aðgerðin hér á landi

Þarna er merin Gáfa nývöknuð eftir svæfingu. Eigandinn Helga Rún Jóhannsdóttir heldur í merina en Ingunn Reynisdóttir dýralæknir heldur í taglið. MYND AÐSEND
Þarna er merin Gáfa nývöknuð eftir svæfingu. Eigandinn Helga Rún Jóhannsdóttir heldur í merina en Ingunn Reynisdóttir dýralæknir heldur í taglið. MYND AÐSEND

Á föstudaginn var lenti Ingunn Reynisdóttir dýralæknir og eigandi Dýrin mín stór og smá á Syðri-Völlum í Húnaþingi vestra í útkalli á bæinn Bessastaði þar sem hryssan Gáfa hafði farið úr bóglið á hægri framfæti eftir að hafa lent í áflogum við aðra hesta.

Þegar Ingunn kom á staðinn og skoðaði Gáfu var tekin ákvörðun um að setja hana í röntgen svo hægt væri að sjá betur hversu illa farin hún væri því bólgan var mikil. Þegar myndirnar voru skoðaðar leit þetta betur út en á horfðist og ákveðið var að láta á það reyna að kippa fætinum aftur í lið. Gáfa var því svæfð og notað var til verksins kálfatjakk til að strekkja fótinn aftur í liðinn.

Ef þetta hefði ekki verið reynt hefði þurft að aflífa hryssuna því þau hross sem lenda í sambærilegum slysum eru oftast búin að skemma liðina og umlykjandi vefi, eins og sinar og liðbönd, svo mikið að það er ekkert annað í stöðunni. Gáfa var því mjög heppin og fékk því tækifæri til að vera fyrsta hrossið sem færi í gegnum þessa aðgerð. Í samtali við visir.is sagði Ingunn að hún hafi ekki vitneskju um að þetta hafi verið reynt hér á landi. Hún hafir einungis fundið eina erlenda grein um hvernig ætti að framkvæma hana og má þetta því teljast til dýralæknisfræðilegra afreka sem vonandi verður hægt að nýta oftar í framtíðinni hér á landi.

Ingunn sagði einnig í samtali sínu við visir.is að hryssan sé inni í stíu og verði þar í alla vega mánuð og má lítið sem ekkert hreyfa sig, má ekki leggjast niður og er á verkjastillandi og bólgueyðandi. Gáfa fær því ekki að hreyfa sig fyrr en eftir tvær vikur og er því langt og erfitt endurhæfingarferli til stefnu. Feykir hafði samband við Ingunni á mánudaginn og spurði út í hvernig farið sé að því að leyfa hrossi ekki að leggjast niður og þá svaraði Ingunn „Þá eru þau annað hvort sett í rólu eða bundin í crosstie, er það kallað, en hún virðist það hress að við munum líklega leyfa henni að leggjast niður“.

Feykir þakkar Ingunni fyrir spjallið og sendum batakveðjur á Gáfu sem ætti kannski að taka upp nafnið Gæfa því það mátti ekki litlu muna í þetta skiptið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir