Hugsjón, sérviska og þrái : Reiðskóli Ingimars Pálssonar 40 ára

Nafnarnir í fylkingarbrjósti rei›skólaknapa fyrr í sumar. Hreindís Katla og Sigurbjörg rí›a á eftir og sjá til fless a› enginn heltist úr lestinni.  MYNDIR: PF
Nafnarnir í fylkingarbrjósti rei›skólaknapa fyrr í sumar. Hreindís Katla og Sigurbjörg rí›a á eftir og sjá til fless a› enginn heltist úr lestinni. MYNDIR: PF

Það eiga ófáir góðar minningar af reiðnámskeiði hjá Ingimari Pálssyni á Sauðárkróki enda allmörg ár síðan reiðskólinn hóf göngu sína eða heil fjörtíu. Ingimar lætur ekki deigan síga þó árin hellist yfir hann líkt og skólann en fyrr í sumar fagnaði hann 77 ára afmæli sínu. Feykir tók hús á hestamanninum síunga einn góðan veðurdag fyrr í sumar, rétt áður en farið var í reiðtúr með hóp áhugasamra hestakrakka á reiðnámskeiði.

Þegar blaðamann bar að garði, eða öllu heldur gerði, við hesthús Ingimars í Flæðigerði á Sauðárkóki, mátti sjá að það þarf að ýmsu að hyggja áður en haldið er af stað með unga fólkið. Fjölmörg hross komin með hnakk og önnur reiðtygi, einhverjir komnir á bak en aðrir að bíða eftir því að komið væri að þeim að máta ístöðin. Það er ljóst að hér þurfa fleiri hendur en tvær að koma að verki svo allt gangi eftir áætlun. Sú er líka raunin því hjálparkokkarnir eru þrír; Hreindís Katla Sölvadóttir og barnabörnin Sigurbjörg Kristjánsdóttir og nafni afa síns, Ingimar Eyberg Ingólfsson. Þannig hefur það verið í gegnum tíðina að fjöldi unglinga hefur einmitt aðstoðað Ingimar og fengið að launum, umfram aura, reynslu af hestamennsku, innsýn í einstaklega jákvæðar lausnir ýmissa miskrefjandi verkefna og ævilangan vinskap meistara Ingimars sem einatt lítur til með unga samverkafólkinu á jafnréttisgrundvelli.

Það er í mörg horn að líta í þessu verkefni enda úthaldið umfangsmikið og efalaust kostnaðarsamt; aðstaða, hross, járningar, reiðtygi, öryggisútbúnaður og hey, svo eitthvað sé tínt til.

„Já, ég hef nú ekki orðið loðinn um lófana af þessu, þetta er aðallega hugsjón, sérviska og þrái. Hefur aðal-lega byggst á því,“ útskýrir Ingimar og hlær við. „Maður er fæddur með þessa veiru og þá þarf maður að breiða hana út,“ segir hann og ætla má að það hafi tekist ágætlega með tímanum þar sem óræður fjöldi barna hefur setið námskeið í gegnum árin.

„Nei, ég veit ekki hvað þau eru mörg,“ svarar hann spurningu um hvort hann viti fjölda þeirra sem sótt hafa námskeiðin. „Fyrstu árin voru eldri krakkar sem komu mikið, alveg upp undir fermingu og þá voru þetta alveg uppundir hundrað krakkar yfir sumarið. Þá fór ég einnig á Skagaströnd, Siglufjörð og Ólafsfjörð líka. Ég man ekkert hvaða ár það var, það er orðið langt síðan,“ rifjar Ingimar upp. Þegar hann er spurður um fjöldann þetta sumarið dregur hann seiminn meðan hann kastar tölu á hvern hópinn af öðrum og segir svo ákveðinn: „Reiknaðu nú!“ Hugarreikningur er ekki sterkasta hlið blaðamanns en er þess fullviss að fjöldinn sé kominn nálægt hundraðinu, líkt og gerðist fyrstu árin, en sennilega er verkefnið litið öðrum augum í dag hjá reynslumiklum kennaranum og börnin mun yngri.

Þakklátir þátttakendur

Það má ætla að mikið stóð þurfi til að halda úti reiðskóla en Ingimar segist ekki eiga eins mörg hross nú og áður, búinn að fækka mikið eins og hann segir sjálfur. Fær hann því oft lánaða hesta til að fylla upp í töluna sem þarf í verkefnið og þurfa þeir að vera traustir og þægir, þola álagið og áreitið sem fylgir.

„Þetta byggist upp á, eins og sagt var í gamla daga, brúkunarhestum sem eitthvað eru notaðir daglega, þá er þetta svo einfalt. Þetta er öðruvísi snið hjá mér en reiðkennurum, ég set krakkana á bak og svo ná þeir jafnvæginu bara. Krakkar setjast alltaf rétt á bak, sitja rétt, það er svo skrítið með það, svo kemur þetta bara af sjálfu sér,“ útskýrir Ingimar. Hann segir þetta hafa virkað og allir kátir og þakklátir eins og hann hefur margoft heyrt hjá þeim sem einhvern tímann hafa tekið þátt í reiðnámskeiðunum. Þykir honum vænt um það þegar hann hittir gamla þátttakendur sem minnast á góða tíma í reiðskólanum. „Ég hitti t.d. stelpu um daginn sem spurði: „Er reiðskólinn ennþá?“ „Já, já,“ svaraði ég. Þá sagði hún að þetta hefði verið hápunkturinn hjá sér á sumrin. Hún hafði þá komið til mín fimm sumur í röð. Þetta yljar manni nú svolítið. Ég spurði hvort hún hefði farið á bak síðan. „Nei, aldrei!“ sagði hún. Það þótti mér lakara.“

En það er þetta þakklæti sem heldur Ingimari við efnið eins og svarið við spurningunni „Þegar þú lítur til baka, hvað er skemmtilegast við þetta?“ vitnar um:

„Þetta er alltaf jafn gaman, það er nú bara tilfellið, þegar krakkarnir eru svona ánægðir. Það er nú bara þannig.“

Og þetta heldur þér ungum? „Já, það gerir það. Ef ég væri ekki í þessu þá færi ég ekki eins mikið á bak, þó ég komist það nú varla,“ segir hann og hlær sínum smitandi hlátri. „Já, og vasast í kringum þetta, járna og fleira,“ segir hann en hrossin járnar hann sjálfur. „Já, ég geri það nú sjálfur, ennþá.“

Í lokin segist Ingimar vilja koma þökkum til allra þeirra sem hafa hjálpað honum í gegnum árin. „Þeir eru orðnir ansi margir sem hafa aðstoðað mig í þessu í gegnum tíðina og þeim er ég þakklátur,“ segir hann.

En skyldi hann ætla að halda áfram með reiðnámskeið um ókomin ár?

„Ég hef nú ætlað mér að hætta þessu í mörg ár svo það er best að segja ekki neitt svo maður fari ekki að ljúga neinu,“ segir hann að lokum og rekur upp feikna mikinn hrossahlátur sem vel á við í kaffistofunni í hesthúsinu.

- - - - - -
Viðtalið tók Palli Friðriks og það birtist fyrst í 29. tölublaði Feykis sem kom út í síðustu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir