Þráinn frá Flagbjarnarholti seldur

Íslenskt einkahlutafélag, Þráinsskjöldur ehf, hefur fest kaup á stóðhestinum Þráni frá Flagbjarnarholti. Félagið Þráinsskjöldur, undir forystu Þórarins Eymundssonar á Sauðárkróki, var stofnað nú á dögunum til að koma í veg fyrir að hesturinn færi úr landi.

Þráinn frá Flagbjarnarholti sló í gegn á LM 2018 þegar hann fór í annað skiptið yfir 9 í einkunn fyrir hæfileika og hefur síðan þá verið hæst dæmdi stóðhestur í heimi og verið vinsæll kynbótahestur með rúmlega 200 skráð afkvæmi í WF. Félagsskapurinn er einhuga um að halda Þráni áfram hérlendis til ræktunar en hann hefur einnig náð frábærum árangri í keppni bæði innan húss sem utan og er stefnt með hann á LM á Hellu næsta sumar.

Þórarinn, sem sýnt hefur Þráinn og keppt á til margra ára, segir að eigendur hestsins, hollensk hjón sem komin eru hátt á sjötugsaldur, hafi viljað minnka frekar við sig heldur en hitt í hestamennskunni, og íhugað um tíma að selja hestinn. „Þau hafa fengið fleiri en eitt tilboð en svo kom tilboð í haust sem þeim fannst þau ekki getað hafnað. Þau höfðu samband við mig, en ég vissi svo sem að þetta væri yfirvofandi, en maður kannski gerir ekkert í því fyrr en maður stendur frammi fyrir því hvort maður ætlar að gera eitthvað eða ekki. Þetta er heljarinnar dæmi,“ segir Þórarinn sem fór strax af stað og kannaði áhuga manna hér innan lands um kaup á hestinum með honum. Svo vel gekk að fá menn með sér að innan við sólarhring var hópurinn klár. „Þá var ég kominn með loforð og samstæðan hóp sem vildi taka þátt í þessu verkefni. Síðan þá hefur staðið yfir pappírsvinna, formlegur frágangur og stofna fyrirtæki og allt sem því fylgir. Það skemmtilega við þetta er þegar ég hringi í þau eftir 24 tíma og segi þeim að þetta sé klárt þá urðu þau glöð og vildu gjarnan fá að vera með í þeim hópi, þannig að þau eiga enn smá hlut í hestinum. Þau voru mjög áhugasöm að fá að vera með áfram í sögunni.“

Þórarinn segir mikla áhættu fólgna í því að fjárfesta í dýrum stóðhesti en segist ekki hafa hafa verið í vafa þar sem afkvæmi undan honum gefi góða von. „Ég veit ekki hvort ég hefði þorað í þetta fyrr en akkúrat á þessum tímapunkti þegar ég er farin að sjá nokkuð af tryppunum undan honum sem eru núna í tamningu. Það gerði útslagið að ég sé að tryppin eru bráðefnileg og mér líst mjög vel á þau. Það er mikið atriði að þau séu góð til ræktunar líka. Á því byggist framtíðin.“

Tengd frétt: 
Tóti með hæst dæmda hest í heimi í annað sinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir