Smábæjarleikarnir á Blönduósi um helgina

Smábæjarleikar Arionbanka verða haldnir á Blönduósi helgina 17.-18. júní. Smábæjarleikarnir eru knattspyrnumót sem hugsað er fyrir félagslið minni bæjarfélaga úti á landi, bæði stelpur og stráka, í 5., 6., 7. og 8. flokki og er þetta í 14. sinn sem leikarnir eru haldnir. Spilað er í riðlakeppni á laugardag og sunnudag en tekið er á móti liðum á föstudag.

Um 50 lið hafa skráð sig til leiks en það eru um 500 þátttakendur. Því má reikna með miklu fjölmenni á Blönduósi um helgina því með hverju barni fylgja oftast foreldrar og jafnvel fleiri aðstandendur. Mótið verður haldið á hinu glæsilega vallarsvæði Hvatar en það er miðsvæðis á Blönduósi og stutt í alla þjónustu eins og verslun, kaffihús, sundlaug og gististaði. Mótið verður sett á íþróttavellinum.

Ýmislegt verður fleira til skemmtunar en boltinn, má þar nefna kvöldvöku í íþróttahúsinu á laugardagskvöldið þar sem Pollapönkarar munu halda uppi stemningu.

Í tilefni leikanna verður breyttur opnunartími hjá sundlauginni. Hún verður opin kl. 8-21 á föstudag og kl. 8-20 á laugardag og sunnudag. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir