Það ætla bókstaflega allir að mæta í Síkið

Var einhver búinn að gleyma því að það er leikur í kvöld? Sennilega ekki en þó er rétt að minna á að fyrsti leikurinn í úrslitaeinvígi Tindastóls og KR um Íslandsmeistaratitilinn í körfu verður í Síkinu í kvöld og hefst kl. 19:15 stundvíslega. Ekki er laust við að það örli á smá eftirvæntingu í Skagafirði og gera flestir spekingar ráð fyrir að úr verði hörku einvígi. Er talað um einvígi „reynslu á móti greddu“ og þá eru það víst Stólarnir sem eru í hlutverki hinna síðarnefndu.

Á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir: „Algjör skyldumæting er á leikinn og ætlar enginn að missa af þessari veislu. Forseti Íslands HR Guðni Th Jóhannesson er búinn að hafa samband við okkur og ætlar sko ekki að missa af þessu og mun mæta á leikinn. Einnig hefur það heyrst að Skagafjarðarsonurinn, Auðunn Blöndal, verði líklega á heimaslóðum...  ...Forsala verður á leikinn frá 16.30 og hvetjum við fólk að nýta sér það. 
Óli og félagar með gæðaborgarana og ætti enginn að láta þá framhjá sér fara. Við verðum með stuðningsmannaboli til sölu í Tánni hjá Rannveigu ... og svo í íþróttahúsinu frá 17:00 fyrir leik.“

Það verður því sjóðbullandi hiti í Síkinu í kvöld og væntanlega mæta nokkrir reynsluboltar úr Vesturbænum norður því KR býður upp á rútuferðir á Krókinn og til baka eftir leik. Ekki er annað vitað en allir séu klárir í slaginn og því bara vissara að fara að teygja á strax. Helgi Margeirs segir á FB að hann hafi vaknað vel peppaður í morgun og reif sig svo í gang með einu vindmyllutroði í heimkeyrslunni...

Á Króknum dreymir flesta á svipuðum nótum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir