Það rýkur úr undirskriftapennanum hjá Kormáki/Hvöt

Um helgina tilkynnti Kormákur/Hvöt fjóra liðsmenn sem skrifuðu undir hjá þeim á dögunum en það eru framherjinn Artur Balicki, senterinn Kristinn Bjarni Andrason,  markmaðurinn Snorri Þór Stefánsson og svo kantmaðurinn Jón Gísli Stefánsson. Á Facebook-síðunni Aðdáendasíða Kormáks/Hvatar er nánari lýsing á köppunum. 

"Pólski framherjinn Artur Balicki er genginn til liðs við Kormák Hvöt frá liðinu Orleta R.P. í heimalandi hans.  

Artur, sem er 24 ára, var fremsta skotmark klúbbsins þetta vorið, en hann á bæði leiki með U-19 ára landsliði Póllands og leiki með liðum í efstu deild þar í landi. Honum er lýst sem leikmanni með endalausa hlaupagetu og liðsmanni hinum mesta - leikmaður sem hugsar um allt liðið en ekki bara hversu oft hann sjálfur kemur boltanum í netið.

Hér er á ferð alvöru kanóna sem á vafalaust eftir að hrella margan varnarmann andstæðinganna, en ekki síður að gefa af sér til okkar spennandi undu leikmanna.Hlökkum til að sjá Artur í bleiku innan skamms!"

"Stormsenterinn Kristinn Bjarni Andrason er genginn til liðs við Kormák Hvöt frá Kormáki Hvöt.

Hljómar kannski einkennilega að koma og fara frá sama liðinu, en Kristinn Bjarni skrifaði nú á Þorranum undir sinn fyrsta samning við Þór frá Akureyri og var um leið lánaður aftur heim, þar sem hann mun spila áfram með Kormáki Hvöt í sumar. Þetta eru afar góðar fréttir, sérstaklega ef þær risa framfarir sem hann tók á síðasta ári. Kristinn Bjarni var eini leikmaður Kormáks Hvatar sem kom við sögu í öllum 22 leikjum okkar sigursæla sumars, en samtals á hann að baki 38 meistaraflokksleiki og í þeim fjögur mörk. Ganske gott fyrir leikmann á 18. aldursári. Velkominn áfram í bleikt Kristinn Bjarni!"
 
"Markmaðurinn Snorri Þór Stefánsson er genginn til liðs við Kormák Hvöt frá Þór á Akureyri. 
Snorri hefur verið markmaður 2.flokks Þórs og spilaði því með mörgum okkar leikmanna í sameiginlegu liði Norðurlands vestra og Þórsara í fyrra. Upphaflega kemur hann upp í gegnum unglingastarf Stjörnunnar. Þessi 19 ára gamli kappi mun standa á milli stanganna hjá Kormáki Hvöt í Lengjubikarnum og verður gaman að sjá hvernig hann smellur inn í okkar samheldna lið nú í vor! Áfram Snorri - áfram Kormákur Hvöt!"

 

Kantmaðurinn knái Jón Gísli Stefánsson er genginn til liðs við Kormák Hvöt frá Tindastóli.

 Jón Gísli lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Kormáki Hvöt árið 2019, þá aðeins á 15. aldursári. Jón Gísli lék 13 leiki með okkar liði áður en hann söðlaði um og lék með Tindastóli árin 2022 og 2023. Alls hefur hann leikið 49 meistaraflokksleiki og skoraði í þeim 8 mörk. Í lok síðustu leiktíðar var Jón Gísli valinn ungi leikmaður ársins hjá Tindastóli. Velkominn heim Jón Gísli!"

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir