Feiknaaðsókn á körfuboltanámskeið á Húnavöllum

Vel var mætt á körfuboltanámskeið á Húnavöllum þar sem rúmlega 1/3 af nemendum skólans nutu leiðsagnar Helga Freys Margeirssonar hjá Körfuboltaskóla Norðurlands. Hér er Helgi ásamt eldri hópnum. Aðsendar myndir.
Vel var mætt á körfuboltanámskeið á Húnavöllum þar sem rúmlega 1/3 af nemendum skólans nutu leiðsagnar Helga Freys Margeirssonar hjá Körfuboltaskóla Norðurlands. Hér er Helgi ásamt eldri hópnum. Aðsendar myndir.

Körfuboltaskóli Norðurlands hélt námskeið í Húnavallaskóla 17. apríl síðastliðinn en vegna Covidáhrifa hafði því verið frestað áður. Helgi Freyr Margeirsson, rektor Körfuboltaskólans, segir að náð hafi að skjóta inn námskeiði rétt fyrir sauðburð áður en álagið á mörgum bæjum í sveitinni eykst og minni tími gæfist til að sækja námskeið. Körfuboltaskólinn gaf svo skólanum fjóra bolta fyrir yngsta aldurshópinn sem væntanlega verða nýttir vel.

Helgi segir að á Húnavöllum sé, eins og á svo mörgum stöðum á Norðurlandi, flott aðstaða í til körfuboltaiðkunar. Markmið skólans er að koma körfubolta framar í huga krakkanna þegar þau horfa til íþróttaiðkunar og segir Helgi að þar sem fámennið er hentar körfuboltinn mjög vel og aðstaðan oftast mjög góð.

„Námskeiðin gengu alveg glimrandi vel, krakkarnir mjög sprækir og áhugasamir sem skilaði sér í framförum strax á þessu fyrsta námskeiði. Það er svo einnig gaman að segja frá því að það mættu rúmlega 1/3 af nemendum skólans á þessi tvö námskeið, annað fyrir yngri bekki og svo það síðara fyrir eldri bekkina 6.-10. bekk. Það er von okkar sem stóðum að þessu að næst náum við meira en helmingi nemenda á námskeið,“ segir Helgi og bætir við að þess beri að geta að námskeiðin voru krökkunum að kostnaðarlausu þar sem Ungmennafélögin Geislar og Bólhlíðingar buðu upp á námskeiðin, sem sé frábært framtak. „Það var mikil jákvæðni með þetta og strax spurt hvenær væri von á öðru námskeiði, sem verður vonandi sem fyrst.“

Að sögn Helga hefur starfsemi Körfuboltaskólans verið mjög stopul í vetur þar sem Covid 19 hefur haft mikil áhrif á námskeiðahald. „Það hefur samt tekist að halda námskeið á, Skagaströnd, Hólmavík, Hvammstanga, Sauðárkróki og núna á Húnavöllum í vetur og bara Blönduós eftir, en það verður vonandi fljótlega.“

Meðfylgjandi eru myndir sem voru teknar á námskeiðunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir