Þytur í laufi sýnt á Hvammstanga

Greta Clough. MYND AÐSEND
Greta Clough. MYND AÐSEND

Á Hvammstanga býr Greta Clough sem er orðin mörgum kunn. Hún er leikhúshöfundur, leikari, leikstjóri og leikskáld. Í fullu starfi býr hún til leikhús bæði frá eigin vinnustofu á Hvammstanga og erlendis. Undanfarin tvö ár hefur hún verið mjög upptekin, með nokkur verkefni í gangi íLettlandi, Noregi, Tékklandi og hér á Íslandi. Greta er margverðlaunuð fyrir verk sín sem hún hefur búið til fyrir börn og fjölskyldur þeirra, en næsta verkefni er að setja á svið leikritið Þytur í laufi með hópi leikara í hennar heimabyggð, Húnaþingi vestra, núna fyrir jólin.

Getur þú sagt okkur frá leikritinu? „Þytur í laufi er ein af þessum klassísku barnasögum sem hafa notið vinsælda um allan hinn vestræna heim síðan hún var skrifuð. Hún er kannski aðeins minna þekkt af ungum áhorfendum á Íslandi en fullorðnir muna jafnvel eftir teiknimyndaþáttunum úr sjónvarpinu,“ segir Greta og blaðamaður man svo sannarlega eftir þeim. Sögurnar voru skrifaðar árið 1908 af breska rithöfundinum Kenneth Grahame. Sögur hans um dýrin sem búa meðfram árbakkanum og í skóginum í nágrenninu vöktu ímyndunarafl kynslóða barna.

„Þetta leikrit var í uppáhaldi hjá mér þegar ég var ung og bjó í Bandaríkjunum. Ég man að ég lék Molda þegar ég var 17 eða 18 ára og það var mjög skemmtilegt. „The Wind in the Willows,“ eins og sagan heitir á ensku, er alltaf yndisleg og heillandi upplifun, full af duttlungum og skemmtilegheitum fyrir áhorfendur á öllum aldri. Sviðið lifnar við með líflegum litum, hugmyndaríkum leikmyndum og skapandi búningum sem lífga persónurnar við,“ segir Greta.

Fyrir hverja er þetta leikrit? „Þetta leikrit er fyndið, ljúft og skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna. Okkur fannst virkilega vanta eitthvað létt og skemmtilegt í ár. Leikritið okkar fjallar um fjögur dýr sem eru vinir - hinn feimna og innhverfa Molda, vatnselskandi Rotta, vitran og sérvitran Greifingja og hinn kærulausa og auðuga Todda. Það er hið hvatvísa eðli Todda sem kemur þeim í vandræði, þar á meðal þráhyggja hans fyrir bílum og kannski ekki allt löglegt. Með heillandi og duttlungafullri frásögn sinni fangar "The Wind in the Willows" kjarna ensku sveitarinnar og leggur áherslu á mikilvægi vináttu, tryggðar og mjög fallegrar tengingar við náttúruna og gleði sveitalífsins,“ bætir Greta við.

Hversu margir taka þátt í upp- setningunni? „Það er alltaf gaman með jólauppfærsluna í Leikflokknum því það eru svo margir sem taka þátt - sérstaklega á sviðinu. Við erum með 22 leikara uppi á sviði. Á bak við tjöldin erum við með fulla áhöfn og skapandi teymi sem telur 11 manns. Öll leikmyndin, búningarnir, hljóðhönnun, ljósahönnun, leikmunir - er mikil vinna og teymið hefur verið að byggja upp þennan fallega heim þar sem Moldi, Rotti, Greifinginn og Toddi lenda í ævintýrum.“

Var auðvelt að fá leikrara? „Það er alltaf fullt af fólki sem finnst gaman að taka þátt. Það er yfirleitt bara spurning hvort tímasetningar henti. Ég elska þennan leikarahóp og þessa leikara. Mikið af skemmtilegu fólki sem elskar að vera á sviðinu og kemur með mikinn karakter, ánægju og ástríðu í ferlið. Sum gömul andlit og önnur ný.“

Hvernig hafa æfingar gengið? „Æfingarnar hafa verið frábærar! Virkilega skemmtilegt og bara yndislegt - þetta er mjög fyndið leikrit með svo miklum húmor og mjög fyndnum atriðum,“ segir Greta. Það er svo gaman að vinna með unga fólkinusem byrjaði í sumarleikhúsi unglinga þegar þau voru kannski átta eða níu ára og eru nú unglingar. Þau skilja svo vel hvað það þýðir að vera hluti af svona hóp og hvað þetta jákvæða leikandi andrúmsloft sem þarf til að setja upp frábæra sýningu. Það er svo gaman að sjá þau vaxa á svo margan jákvæðan hátt bæði sem flytjendur og sem öflugt, jákvætt fólk í samfélaginu sem hafa sýnileg áhrif á aðra. Síðan er ég líka með virkilega sterkan, hæfileikaríkan og fyndinn hóp fullorðinna. Allir vinna hörðum höndum og hafa gaman. Þeir eiga 100% skilið að hafa fullt hús á sýningum. Ég er viss um að áhorfendur munu elska þetta verk eins mikið og ég. Þetta er sýning fyrir alla og alla aldurshópa eins og jólaleikrit á að vera,“ segir Greta.

En að lokum verðum við að vita hvenær við getum fengið að sjá sýninguna? „Frumsýningin er 14. desember. Síðan verða sýningar 15., 16. og lokasýning 17. desember. Sýningarnar fara fram í Félagsheimilinu á Hvammstanga,“ segir Greta að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir