Grillaður lambabógur og bananaís

Matgæðingarnir Björn og Dagný Rósa.
Matgæðingarnir Björn og Dagný Rósa.

„Við ætlum að hafa þetta óhefðbundið þar sem forréttir eru ekki mikið á borðum hjá okkur. Hins vegar bjóðum við aukalega uppá tvær sáraeinfaldar brauðuppskriftir og þar sem yngri sonurinn er með mjólkur- og sojaofnæmi er tekið tillit til þess í uppskriftunum en auðvitað má setja venjulega kúamjólk í staðinn. Eins má skipta öllu mjöli út fyrir glúteinfrítt mjöl í sömu hlutföllum,“ sögðu Dagný Rósa Úlfarsdóttir og Björn Björnsson á Ytra-Hóli 1 í Skagabyggð í 23. tbl. Feykis árið 2016. Dagný starfar sem kennari við Höfðaskóla á Skagaströnd og Björn er sauðfjárbóndi og kjötmatsmaður hjá SAH á Blönduósi.

Aðalréttur
Grillaður lambabógur með grænmeti 

2 lambabógar
ólívuolía
1 stór sæt kartafla
Best á nautið (krydd)
paprikukrydd
salt og pipar 

Aðferð:
Tveir lambabógar hreinsaðir og kryddaðir með blöndu af olíu (ólífu- eða Isio4), Best á nautið, svörtum pipar og salti. Þeim pakkað inn í álpappír og grillaðir í 60-70 mín. Þeim snúið u.þ.b. 4 sinnum á grilltímanum.
Á meðan þeir grillast er ein stór sæt kartafla skorin í um 0,5 cm þykkar sneiðar. Síðan eru sneiðarnar grillaðar á báðum hliðum, það tekur um 10 mínútur og mikilvægt er að pensla þær með olíu. Krydda þær svo með paprikukryddi, svörtum pipar og salti.
Borið fram með góðu salati og kaldri sósu (flestar sósurnar frá Matur og Mörk eru soja- og mjólkurlausar). 

Eftirréttur
Bananaís 

4 vel þroskaðir bananar
mjólk að eigin vali
suðusúkkulaði

Aðferð:
Þessi þarfnast smáundirbúnings og matvinnsluvél eða góður blandari er nauðsyn.
4 vel þroskaðir bananar skornir í bita og lausfrystir. Þegar þeir eru tilbúnir er þeim skellt í marvinnsluvélina og hún sett af stað. Vökvi að eigin vali (mjólk, möndlumjólk, hrísmjólk) er settur saman við smátt og smátt. Ég nota möndlumjólk. Eftir 1-2 mínútur fara bananabitarnir að breyta um áferð og verða silkimjúkir. Passa að setja ekki of mikinn vökva í einu. Þegar blandan er orðin ásættanleg er hægt að bæta t.d. söxuðu suðusúkkulaði í og hræra þá með sleif. Blandan sett í box og fryst í um 30 mínútur. Borið fram með t.d. jarðarberjum, hindberjum og súkkulaðisósu. 

Brauðuppskrift I
Kryddbrauð

6 dl gróft og fínt speltmjöl
6 dl haframjöl
2 dl sukringold (eða venjulegur púðursykur)
3 tsk matarsódi
2 tsk kanill
2 tsk negull
2 tsk engifer
2 tsk kardimommudropar
6 dl möndlumjólk

Aðferð:
Öllu blandað saman og sett í tvö miðlungsstór, smurð kökuform. Baka í um 30 mínútur á 180° og blæstri. 

Brauðuppskrift II
Hrökkbrauð

1 dl sólblómafræ
1 dl hörfræ
1 dl graskersfræ
1 dl sesamfræ
1 dl gróft haframjöl
3,5 dl gróft speltmjöl
1,25 dl olía (td. Isio4)
2 dl vatn
íslenskt sjávarsalt 

Aðferð:
Öllu nema salti er blandað vel saman þar til blandan lítur út eins og hafragrautur. Þá er henni skipt á 2 pappírsarkir á bökunarplötur, pappír settur yfir og rúllað út með kökukefli. Skorið í hæfilega bita og salti stráð ríkulega yfir. Einnig er gott að setja rifinn ost (venjulegan eða Violife) og hvítlaukssalt yfir. Bakað í u.þ.b. 15 mínútur á blæstri við 200°. Geymist best í þéttu boxi. 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir