Lágkolvetna fiskisúpa og súkkulaðikaka án sykurs og hveiti

Edda Hlíf. MYND AÐSEND.
Edda Hlíf. MYND AÐSEND.

Það er Edda Hlíf Hlífarsdóttir sem var matgæðingur í tbl. 8 á þessu ári en hún fékk áskorun frá systur sinni Þyrey Hlífarsdóttur að taka við þættinum á eftir sér. Edda er fædd og uppalin í Víðiholti í Skagafirði og starfar sem prestur í Húnavatnsprestakalli. Edda er búsett á Blönduósi og er unnusti hennar, Þráinn Víkingur Ragnarsson verkfræðingur, búsettur í Austur-Landeyjum, þar sem þau reka hrossaræktarbú.

RÉTTUR 1
Lágkolvetna fiskisúpa með kókos og karrý

    1 rauð paprika
    1 gul paprika
    vorlaukur – magn eftir smekk, ég nota u.þ.b. 3 stilka
    1 blómkálshaus
    2 litlar dósir af tómatpúrru
    9 dl af vatni
    3 súputeningar, (ég set yfirleitt
    2 fiski og 1 grænmetis eða kjúklinga)
    1 dós kókosmjólk
    1 dós af rækjusmurosti
    500 ml matreiðslurjómi
    karrýkrydd
    salt og pipar
    cumin
    fiskikrydd
    sítrónupipar
    þorskur
    rækjur

Aðferð: Paprikan, vorlaukurinn og blómhálshausinn brytjað niður smátt og smjörsteikt í stórum potti. Tómatpúrrunni hrært saman við grænmetið og vatni hellt yfir. Suðan látin koma upp og lækkað og látið malla. Því næst er kókosmjólk, rækjusmurosti og matreiðslurjómanum blandað út í og látið malla við lágan hita þar til osturinn er bráðnaður. Krydda með karrýi, salti og pipar, cumin, fiskikryddi, sítrónupipar og bara því kryddi sem ykkur finnst gott - smakka til þar til þetta er gourme! Út í mína súpu set ég yfirleitt alltaf þorsk (skorinn í passlega munnbita) og rækjur. Má nota hvaða sjávarfang sem er. - Sett útí í restina og látið malla í svona tíu mínútur.

RÉTTUR 2
Besta sykur og hveitilausa súkkulaðikakan

    100 g smjör 
    100 g sykurlaust dökkt súkkulaði
    2 egg
    1 dl sukrin melis
    1 msk. kakó
    ½ tsk. vanilladuft (má nota vanilludropa í hallæri)
    125 g mascarpone ostur

Aðferð: Hitið ofninn í 175°C. Bræðið saman smjör og súkkulaði – látið kólna aðeins. Skiljið sundur eggin. Þeytið eggjarauður og sukrin vel saman þangað til létt og loftkennt. Bætið mascarpone ostinum út í súkkulaðiblönduna. Blandið þessum tveimur blöndum saman ásamt kakói og vanilludufti. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið varlega saman við í lokin. Hellið í form og bakið í 18-20 mínútur. Ég set þessa alltaf í eldfast mót (miðlungs stærð) en það má líka alveg baka hana í vel smurðu kringlóttu formi (20-24 cm í þvermál). Sukrin melis dustað yfir með sigti þegar kakan er komin úr ofninum – til skrauts. Borin fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum.

Verði ykkur að góðu!
Edda skorar á Bríeti Guðmundsdóttur og Ísak Óla Traustason að taka við keflinu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir