Uppáhalds uppskriftir fjölskyldunnar

Matgæðingarnir Bjarni og Jensína. Mnd: Úr einkasafni.
Matgæðingarnir Bjarni og Jensína. Mnd: Úr einkasafni.

Það voru þau Jensína Lýðsdóttir og Bjarni Ottósson á Skagaströnd sem leyfðu lesendum að fá innsýn í uppáhaldsuppskriftirnar sínar í 22. tölublaði Feykis árið 2015. „Uppskriftirnar eru úr öllum áttum en eiga það sameiginlegt að vera í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Það eru engin jól nema hafa humarsúpuna á borðum. Og heiti rétturinn er eiginlega eini heiti rétturinn sem er gerður á heimilinu þessa stundina,“ sögðu sælkerarnir Jensína og Bjarni.

Forréttur
Humarsúpa 

18 humarhalar (í skel)
2 ½ l vatn
1 lítill laukur
1 gulrót
1 sellerístilkur
1 lárviðarlauf
10 heil piparkorn
2 msk tómatmauk
2 dl hvítvín eða mysa
2 msk humarkraftur
cayenne pipar á hnífsoddi
2 hvítlauksgeirar
2 ½ dl rjómi
steinseljustilkur, eitt búnt (má sleppa)

Smjörbolla:
70 g smjörlíki
70 g hveiti

Aðferð:
Skelflettið humarinn og brúnið skeljarnar í stórum potti í 2 msk af olíu þar til þær verða gullbrúnar. Grófsaxið lauk, sellerí, og gulrætur og bætið í pottinn ásamt tómatmaukinu og látið krauma í smá stund. Bætið vatninu saman við ásamt afganginum af hráefninu í soðuppskriftinni. Sjóðið upp og fleytið froðunni ofan af. Látið sjóða áfram við vægan hita í u.þ.b. 4-5 klst. Sigtið soðið, mælið upp 1,5 lítra og bakið upp með smjörbollunni.  Bætið rjómanum út í og bragðbætið með salti, pipar og fiskikrafti.

Rétt áður en súpan er borin fram er humarhölunum bætt í ásamt fínt saxaðri steinselju. Ath. að humarinn má ekki sjóða meira en tvær mínútur. Berið fram með brauðkollum.

 

Brauðréttur
Heiti rétturinn
1 brauð
1 bréf skinka
1 bréf beikon
½ bréf hangikjöt eða hangikjötskurl
1 dolla beikonostur
4-500 dl rjómi
ostur  

Aðferð:
Brauðið rifið niður í eldfast mót, skinka, beikon og hangikjöt steikt á pönnu, beikonostur og rjómi sett út á og látið malla aðeins, svo er öllu hellt yfir brauðið og ostinum dreift yfir. Sett í ofninn við u.þ.b. 180°C, þar til rétturinn er orðin gulbrúnn.

Eftirréttur
Sælgætisterta 

Botn:
2 egg
70 g sykur
30 g hveiti
30 g kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft 

Aðferð:Þeytið egg og sykur mjög vel saman. Sigtið saman hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft og blandið varlega saman við með sleif. Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm hringlaga móti. Bakið neðarlega í 175°C heitum ofni í u.þ.b. 12 mín. 

Marengs:
3 eggjahvítur
150 g sykur 

Aðferð:
Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smám saman út í, þeytið mjög vel. Teiknið 22 cm hring á bökunarpappír og smyrjið maregnsinum þar á og bakið í 100°C heitum ofni í tvo tíma. 

Krem:
3 eggjarauður
4 msk flórsykur
70 g suðusúkkulaði
2 ½ dl rjómi 

Aðferð:
Þeytið saman eggjarauður og flórsykur, bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og látið hitann rjúka úr og hrærið saman við eggjarauðurnar. Þeytið rjómann og blandið vandlega saman við kremið. 

Fylling og skraut:
3 dl rjómi
50 g súkkulaði 

Samsetning:
Þeytið rjómann og setjið tertuna þannig saman: Fyrst botn þá rjóma og svo krem, marengs, rjóma og loks krem. Látið tertuna standa í ísskáp í 6-8 tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með bræddu súkkulaði. 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir