Matgæðingar

Beitukóngur, sveigjanleg glás og rabarbarakaka

Í 28. tbl. ársins 2017 var skyggnst í pottana hjá Erlu Björk Örnólfsdóttur, sjávarlíffræðingi og rektor Háskólans á Hólum. Erla hefur búið á Hólum frá því í maí 2012 og var þá að hefja sitt sjötta starfsár við háskólann. „Ég nýt búsetu á Hólum, umlukin tignarlegum fjöllum og fádæma veðursæld,“ sagði Erla. „Uppskriftir þær sem ég deili eru mínar uppáhalds, en uppruni dálætisins er af nokkuð ólíkum toga. Aðalrétturinn, sem er orkuríkt vetrarfóður, og kakan eiga það sammerkt að vera árstíðabundin í matargerð og aðgengilegt hráefni á meðan erfiðara er að nálgast beitukóng til matreiðslu en hann er afar skemmtilegt hráefni. Beitukóngur er sæsnigill, sem finnst víða á grunnsævi, t.d. í Húnaflóa og Skagafirði, þó eingöngu hafi hann verið veiddur í Breiðafirði og þá til útflutnings. Verði þessi uppskrift einhverjum hvatning til að skella niður gildru og safna beitukóngi, þá væri það frábært. Það er dálítið maus að hreinsa beitukónginn, en vel þess virði,“ segir Erla.
Meira

BBQ kjúlli og Rice Crispies

Róar Örn Hjaltason og Þuríður Valdimarsdóttir voru matgæðingar vikunnar í 27. tbl Feykis 2017. Þau búa á bænum Hamraborg í Hegranesi sem þau keyptu sumarið áður þegar þau fluttu heim frá Noregi. Róar er uppalinn á Sauðárkróki og Þuríður er frá bænum Helguhvammi á Vatnsnesi. Hún er sjúkraliði og vinnur á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki og Róar er vélvirki og vinnur á Vélaverkstæði KS. Þau gáfu okkur sýnishorn af uppáhaldsuppskriftunum sínum; skötusel sem er mjög góður sem forréttur, BBQ kjúklingi og Rice Crispies. „Annars á ég mjög erfitt með að fylgja einni uppskrift, ég þarf alltaf að bæta þær eitthvað eða skella tveimur til þremur uppskriftum saman svo ég á ekki margar uppskriftir,“ segir Þuríður.
Meira

Klassísk grillmáltíð með meiru

Hjónin Ína Björk Ársælsdóttir og Reimar Marteinsson búa á Hvammstanga ásamt þremur börnum. Þau voru matgæðingar Feykis í 26. tbl. ársins 2017. Reimar er kaupfélagsstjóri KVH og Ína Björk starfar við umhverfismál og fleira á framkvæmda-og umhverfissviði Húnaþings vestra. Þau segja að grillið sé mikið notað yfir sumartímann og finnst því tilvalið segja frá einni klassískri grillmáltíð á heimilinu og bæta við rabbarbaraböku sem er án hveitis og sykurs. „Einnig ætlum við að gefa hugmynd að næringardrykk, „boosti", sem er gott að fá sér eftir hlaup eða æfingu. Íslensk bláber, rabbarbari og grænmeti úr garðinum gegna stóru hlutverki í uppskriftunum og er án efa allt saman hollt, hagkvæmt og gott,“ segja matgæðingarnir okkar.
Meira

Mean Ass Horse Chili, bjórskankar og rabbarbarakaka

Bjarni K. Kristjánsson og Agnes-Katharina Kreiling á Hólum í Hjaltadal voru matgæðingar í 25. tbl. Feykis 2017 þegar þessi þáttur birtist: Bjarni hefur búið á Hólum í nærri 20 ár og starfar sem prófessor við Háskólann á Hólum. Agnes, sem hefur verið á Íslandi í þrjú ár, hefur leigt hjá Bjarna síðastliðina átta mánuði og stundar doktorsnám við skólann. Bæði eru miklir matgæðingar og finnst gott að borða góðan mat og drekka með honum góðan bjór. Hér á eftir fylgja þrjár uppskriftir sem hægt er að nota ef fjölda gesta ber að garði.
Meira

Kjúklingaréttur og syndsamlega góð skyrterta

Það er hún Jóhanna Helga Sigtryggsdóttir sem ætlar að bjóða okkur upp á girnilegar kræsingar þessa vikuna. Jóhanna býr á Hvammstanga en er ættuð af Vatnsnesi og úr Víðidal. Hún vinnur á leikskólanum Ásgarði og einnig í félagsmiðstöðinni Órion. Uppáhaldsmatur Jóhönnu er jólamaturinn, svínakjöt, brúnaðar kartöflur og meðlæti en hún segist hafa mjög gaman af matseld og að prufa alls konar uppskriftir. „Mér finnst gaman að elda góðan mat og bjóða vinum og ætla að vera duglegri við það í ár í nýja húsinu mínu,“ segir Jóhanna. Þátturinn birtist í 24. tbl. Feykis í júní 2017.
Meira

Hægeldað lambalæri og hindberjadesert

Matgæðingar Feykis í 23. tbl. Feykis árið 2017 voru þau Guðrún Helga Marteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hörður Gylfason sem er menntaður húsasmiður en starfar hjá KVH í pakkhúsdeild, auk þess að vera sjúkraflutningamaður. Þau eru búsett á Hvammstanga ásamt tveimur börnum sínum, þeim Helga og Bellu, sem og hundi og ketti. Þau ætla buðu lesendum upp á tvo rétti, aðalrétt og eftirrétt. „Lambakjöt er í miklu uppáhaldi hjá okkur, þvi kom ekkert annað til greina en að velja einhvern af okkar uppáhalds lambakjötsréttum. Eftirréttinn notum við stundum við hátiðleg tilefni en börnin okkar elska hindber. Þetta er uppskrift sem áskotnaðist okkur fyrir töluverðu síðan,“ sögðu matgæðingarnir Guðrún Helga og Hörður.
Meira

Broddborgarar og fleira góðmeti

Í 22. tölublaði Feykis árið 2017 voru það þau Broddi Reyr Hansen og Christine Hellwig sem léku listir sínar við matreiðsluna. Þau búa á Hólum og hefur Broddi búið þar frá árinu 1998 en Christine frá 2004. Broddi er líffræðingur að mennt en starfar sem kerfisstjóri við Háskólinn á Hólum, í frítíma sínum hefur hann m.a. stundað bjórgerð fyrir þyrsta íbúa á Hólum. Christine er grunn- og leikskólakennari og starfar sem deildarstjóri við leikskólann Tröllaborg á Hólum, hennar áhugamál er meðal annars að æfa og syngja í Skagfirska kammerkórnum. Saman eiga þau tvö börn, Janus Æsi og Ylfu Marie. Þau gáfu okkur uppskriftir að einföldum fiskrétti, Broddborgurum sem eru tilvaldir í föstudagsmatinn og risa pönnukökum sem henta vel á laugardegi að þeirra sögn.
Meira

Laufskála-Lasagna og snúðakaka

Matgæðingaþátturinn sem hér fer á eftir birtist áður í 21. tbl.. Feykis 2017: Mikael Þór Björnsson og Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir búa á Hvammstanga ásamt þremur börnum og tveimur köttum í gömlu huggulegu húsi sem heitir Laufskáli. Mikael vinnur sem sjúkraþjálfari og Sólrún er kennari. Þau gefa okkur tvær girnilegar uppskriftir. „Við erum ennþá heilaþvegin af áramótaskaupinu og erum á móti matarsóun... þess vegna erum við með svona „taka til í ísskápnum“ rétt en lasagna er algjörlega uppáhalds hjá öllum í fjölskyldunni,“ segja þau.
Meira

Beikonvafðir þorskhnakkar og uppáhaldsísinn

Borghildur Heiðrún Haraldsdóttir og Gunnlaugur Agnar Sigurðsson voru matgæðingar í 20. tbl. Feykis 2017. Þau búa á Hvammstanga þar sem Borghildur starfar á leikskólanum Ásgarði og Agnar sem verktaki við ýmis verk. Börnin eru samtals sjö þannig að heimilið er stórt, fjörugt, gefandi og gleðjandi. „Við erum orðin spennt fyrir sumrinu sem er reyndar löngu komið á Hvammstanga og ætlum við að vera dugleg að njóta, grilla og borða ís,“ sögðu þau á vormánuðum 2017.
Meira

Bakaður fetaostur og nautasteik með eins litlu grænmeti og mögulegt er

Kúabændurnir Brynjar og Guðrún Helga í Miðhúsum í Blönduhlíð deildu uppskriftum með lesendum Feykis í 19. tbl. ársins 2017 og að sjálfsögðu varð nautasteik fyrir valinu. Þau hófu búskap á heimaslóðum Guðrúnar í Miðhúsum þremur árum áður og bjuggu þá með 40 kýr og eitthvað af hundum, köttum, hestum og kindum. Að eigin sögn er Brynjar „bara sveitadurgur“ en Guðrún kenndi við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi auk þess að troða upp sem söngkona við hin ýmsu tækifæri. Börn þeirra hjóna eru fjögur.
Meira