Rabb-a-babb 220: Eva Guð

Eva Guð bregður á leik. MYND AÐSEND
Eva Guð bregður á leik. MYND AÐSEND

„Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir en alltaf kölluð Eva en Guð má fylgja með ef hann kýs svo,“ svarar Eva þegar hún er spurð að nafni. Hún býr á Skagaströnd „...eða paradís eins og margir kalla,“ segir hún. Eva er fædd árið 1986, rétt eftir að Wham! sungu sitt síðasta á Wembley í London, og er í sambúð með Jonna sínum, á tvo börn, fimm stjúpbörn og tvo skáömmudrengi.

Foreldrar Evu eru Guðbjartur Ólafsson tæknifræðingur og Elín Kristinsdóttir sjúkraliði. Hún er alin upp á Blönduósi en segist aðallega vera að veztan en með þrjóskan afturenda úr S-Þingeyjarsýslu. „Það er alltaf allt á milljón!“ segir Eva þegar hún er spurð um hvað sé í deiglunni. „Alltaf nóg að gera í vinnunni uppi á HSN, Leikfélag Blönduóss er að takast vel á flug, Menningar-og samveruhúsið Bjarmanes er að skipuleggja haust dagskrána, NES listamiðstöð er að vinna úr umsóknum fyrir Light Up! 2024 og sveitarstjórnarmálin ganga sinn farveg. En aðalmálið er afmælið mitt þann 8. september!“ bætir hún við og kemur því upp um Feyki sem sendi henni Rabbið til svörunar fyrir löngu síðan.

Hvernig nemandi varstu? Ég held að ég hafi verið ágætis nemandi, kannski stundum að grípa frammí og koma með lélega brandara en hagaði mér bærilega þrátt fyrir skipulag náms á þessum tíma.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar ég fékk 14” rauða sjónvarpið úr Sjónvarpsmarkaðinum með innbyggða videospólutækinu... gvuuðð…

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dýralæknir en það tók ekki nema nokkur ár til að átta mig á því að ég þyrfti að eiga gríðarlega jörð til að geta hýst öll þau dýr sem ég aldrei gæti svæft, svo draumurinn fékk að breytast í aðra spennandi drauma. Svo langaði mig að verða söngkona, og langar það ennþá… en ég vil varla breyta draumi mínum í martröð annarra!

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Monsi? Eða Dúa bíllinn? Eða kannski bara Barbie dúkkurnar og húsið?

Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Ég þori varla að segja það…

Besti ilmurinn? Af ný þvegnum þvotti sem hefur fengið að láta gusta um sig á snúrunni í norðanrokinu.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í stofunni heima hjá mér í Þorsteinshúsi á Blönduósi á hinu áhugaverða ári 2020.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ætli það hafi ekki verið Queen eða Jet Black Joe eða hugsanlega Nýdönsk… eða kannski var það bara Hey Ya! með Outkast.

Hvernig slakarðu á? Ég slaka eiginlega mest á þegar ég horfi á eitthvert læknadrama eða annað slíkt… Þá er svo lítið pláss fyrir heilann minn til að vera að vinna í einhverju öðru.

Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? Brooklyn Nine-Nine, mitt allra mesta guilty pleasure þegar ég er ein heima, eða allar norrænu þáttaraðirnar sem RÚV hendir inn – alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart.

Hvaða bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Karlakórinn Hekla, þar til að Ace Ventura tók við sem stýrði manni svo beint á Titanic og í Notting Hill.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Það er Ólafur Tómas bróðir minn, sem er hinn mesti íþrótta-veiðimaður sem ég þekki.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að teikna upp fjársjóðskort þegar einhver á afmæli eða þegar leitað er að páskaeggjunum.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Að eiga mann sem eldar ofan í mig gómsætan mat, algjör snilld.

Hættulegasta helgarnammið? Malt & appelsín og popp.

Hvernig er eggið best? Steikt báðum megin með eggjandi söng og Aromati.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég tek að mér margt og lofa langt ofan í skálmar… eða hversu mikið ég get talað og bullað… eða hversu gleymin ég er, því ómöglega get ég verið með gagnamagn til að geyma allt sem ég blaðra og heyri.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ókurteisi. Fordómar. Og fólk sem heldur að það sé yfir aðra hafið.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ekki upphefja sjálfan þig með því að skíta yfir aðra og það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn. Þetta lýsir því kannski að ég er að hugsa voðalega mikið um fráveitumál og dælustöðvar :o)

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég sleikti ljósastaurinn fyrir utan heima og sagan sagði að ég hefði misst helminginn af tungunni, þess vegna næ ég ekki upp í nef. En ég held að þetta sé allt lygi enda man ég ekki neitt.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Donald Trump og ég myndi raka af mér hárið, hætta að drekka gulrótasafa og leggja mig inn einhvers staðar í langtímadvöl.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Akkúrat núna er það Sævar Helgi Bragason og Vísindalæsisbækurnar, loksins get ég lært eitthvað áhugavert á meðan ég les fyrir börnin (og kennt þeim). Því ekki hef ég athygli í að lesa sjálf bækur.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ætli það séu ekki bókstaflega flest öll orð sem koma út úr mínum munni.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég á erfitt með að velja á milli fróðleiks eða fíbblagangs… annað hvort væri það Ólafur Ragnar Grímsson, Vigdís Finnbogadóttir og Guðni Th. eða einhverjir algjörir grínarar eins og Fóstbræður. Mig langar bara svo að heyra lífssöguna og reynsluna þeirra. En á hinn bóginn væri það bara til að hafa gaman!

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ætli ég myndi ekki hitta mig á yngri árum og leggja aðeins línurnar, gefa mér pínu pepp ræðu og segja mér að ég get gert það sem ég vil og orðið hvað sem er!

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þar sem púpur fá að vaxa er frjósamur jarðvegur fyrir fiðrildi að lifa – Fjölhyglis sjálfsævisaga ungrar konu sem lendir í fjölmörgum áhugaverðum verkefnum í lífinu.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Karabíska hafið, beint í strápils með kókóshnetu fulla af gúmmelaði með gömlu plaströri.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:Búa erlendis – stofna sjálfbæran rekstur – ferðast um allan heiminn eða allavega klára þessi skemmtilegu verkefni sem ég er að sinna í dag og gera samfélögin að betri og skemmtilegri stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir