Lillý söng til sigurs

Emelíana Lillý var frábær. SKJÁMYND
Emelíana Lillý var frábær. SKJÁMYND

Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir gerði sér í kvöld lítið fyrir og sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í Stapanum á Selfossi og var sýnd í Sjónvarpinu í beinni útsendingu. Alls voru fulltrúar frá 25 framhaldsskólum sem tóku þátt í keppninni en Lillý var hreint mögnuð og söng af fádæma öryggi lagið Aldrei, íslenska útgáfu af laginu Never Enough – lag sem er ekki á hvers manns færi að koma frá sér. Til hamingju Lillý og til hamingju FNV!

Að þessu sinni áttu allir textar að vera sungnir á íslensku og það var Ingi Sigþór Gunnarsson sem setti nýjan texta við lagið sem ku vera eftir Loren Alfred. Lagið er úr myndinni The Greatest Showman.

Þá er rétt að geta þess að Lillý, sem er Króksari, er dóttir Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur og Guðbrandar Guðbrandssonar og bróðir hennar, Eysteinn, er sömuleiðis hæfileikabúnt í leik og söng. Lillý kom því að í viðtali áður en úrslitin voru kynnt að hún syngi með hljómsveitinni Danssveit Dósa. Þá má sjá Lillý mæta á svið enn eina ferðina með Leikfélagi Sauðárkróki í Sæluvikustykkinu Litlu hryllingsbúðinni.

Fjórði sigur FNV í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna hefur farið fram árlega síðan árið 1990. Að sjálfsögðu hefur Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fagnað sigri áður. Fyrst var það Hrafnhildur Víglundsdóttir frá Dæli sem söng lagið Wind Beneath My Wings. Árið 2000 fagnaði Króksarinn Sverrir Bergmann sigri en hann söng lagið Always sem Bon Jovi gerði vinsælt. Síðasti sigurvegari FNV söng til sigurs árið 2002 en það var Siglfirðingurinn Eva Karlotta ásamt The Sheep River Hooks sem söng frumsamið lag. Það var því kominn tími til að krækja í sigur á ný og mæta með hljóðnemann góða norður eftir 22 ára fjarveru.

Það má segja að sigur Lillýjar hafi verið punkturinn yfir i-ið í þeirri skagfirsku tónlistarveislu sem hefur verið í gangi þessa helgina fyrir sunnan því í gær héldu strákarnir í Úlfur Úlfur útgáfutónleika í Gamla bíói og í dag og í kvöld var 80 ára afmæli stráksins úr Sæmundarhlíðinni, Geira, fagnað með tvennum tónleikum í Hörpu. Til hamingju Ísland!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir