Fimm ára að hlusta á In the Mood með Glenn Miller / SIGURDÍS

Sigurdís. AÐSEND MYND
Sigurdís. AÐSEND MYND

Feykir sagði frá því fyrir skömmu að Sigurdís Sandra Tryggvadóttir hefði í vor sent frá sér ábreiðu af laginu I Get Along With You Very Well eftir Hoagy Carmichael. Það var því um að gera að plata Sigurdísi í að svara Tón-lystinni í Feyki. Hún er búsett í Óðinsvéum í Danmörku, fædd árið 1993 og alin upp í Ártúnum í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar eru Tryggvi Jónsson og Jóhanna Magnúsdóttir.

Odense er þriðja stærsta borgin í Danmörku, staðsett á Fjóni og segir Sigurdís þetta vera mjög notalegan bæ þar sem hún kemst allra sinna ferða á hjóli. „Miðbærinn þar sem skólinn er staðsettur er mjög skemmtilegur, gömul hús í bland við nýjar byggingar, stutt að labba niður að ánni sem rennur í gegnum bæinn og mjög margir garðar og græn svæði. Bærinn státar líka af því að vera heimabær H.C. Andersen og mjög margir viðburðir og hátíðir tengdar honum. Bærinn hefur verið í mikilli uppbyggingu síðan ég flutti 2017, meðal annars kominn hinn fínasti sporvagn og stórt H.C. Andersen safn og garður. Ég get svo tekið undir með Dönunum, Fyn er fin, en þegar maður býr á Fjóni er maður mjög miðsvæðis, klukkutími með lest til Kaupmannahafnar og einn og hálfur til Árósa.“

Eins og sjá má á svörum Sigurdísar þá er hún með pínu óvenjulegan tónlistarsmekk... eða hvað er óvenjulegt í dag? Ungt fólk – eða reyndar flestallir – hefur aðgang að allri heimsins músík í gegnum tónlistarveitur í snjallsímum eða öðrum töfratólum nútímans og hlustar á hvað sem grípur þessar gráu í höfuðstöðvunum. Og ungt fólk er ekki bara að hlusta á popp, rokk og rapp. Sveifla og jazz virðist í það minnsta eiga hug Sigurdísar.

„Aðalhljóðfærið er píanó en ég er svo nýlega farin að vinna með sönginn,“ segir hún en mesta afrekið á tónlistarsviðinu telur hún sennilega vera að komast inn í jazztónlistarnám í góðum skóla, þrátt fyrir að hafa byrjað seint í jazzinum. „Annars er ég líka ánægð með fyrsta lagið sem ég gaf út nýlega og það er gaman að hafa fengið þrisvar sinnum tækifæri til að skrifa og útsetja verk fyrir stórsveit. Annars vona ég bara að ég eigi stærri afrekin inni í framtíðinni.“

Nú í júní lýkur Sigurdís kandídatsnámi í tónsmíðum og píanóleik frá Syddansk Musikkonservatorium. „Svo er ég komin inn í tveggja ára sólistanám hér í Danmörku sem byrjar í haust. Þetta er í raun bara viðbótanám eftir kandídatinn, þar sem ég er að vinna að eigin tónlistarverkefnum en með þeim leiðbeinendum sem ég kýs.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það eru svo margir Íslendingar að gera frábæra hluti núna. Hef meðal annars verið að fylgjast með Laufey undanfarið.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? I Never Felt At Home – Trondheim Jazz Orhcestra.

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvaða lag tækjuð þið? Frank Sinatra eða Tony Bennett. Við myndum taka eitthvað huggulegt jazzlag eins og Love Is Here To Stay, My Romance eða Lucky To Be Me.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Þær plötur sem ég man alla vega eftir að hafa valið oft úr plötusafni foreldra minna voru Bítlarnir, Elvis Presley, The Shadows, Glenn Miller og Ivan Rebroff. Þegar ég varð eldri hlustaði ég svo mikið á Tónar í Tómstundum með Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps en afi var einmitt söngstjóri þar. Sú plata á stóran stað í hjartanu.

Hver var fyrsta platan/disk-urinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ætli það hafi ekki verið einhver Pottþétt plata. Annars er fyrsta platan sem ég man eftir að hafa fengið í gjöf Gunni og Felix – Landkönnuðir. Hana kann ég enn utan að.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég eignaðist ekki eigin græjur fyrr en ég var orðin hálffullorðin en átti hins vegar hið fínasta ferðavasadiskó í svartri leðurtösku þegar ég var yngri. Annars vorum við Sigríður Embla, frænka mín með fermingargræjur bróður míns í fjósinu á sumrin þegar við vorum að þrífa.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? In the Mood – Glenn Miller. Ég hef verið svona fimm ára, kveikti oft á því í stofunni og ímyndaði mér að fólkið á ljósmyndunum væri að horfa á mig dansa.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Ég er nokkuð viss um að þetta sé óvinsælt svar en lagið Vetrarsól er ekki í uppáhaldi.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Tjaa .. ég er ekki þekkt fyrir að setja réttu lögin á í partýum en ég prófa samt alltaf. Hef undanfarið verið að vinna með NaaNaaNaa með Cory Henry. Annars bað ég um Proud Mary á hverju einasta sveitaballi sem ég fór á hér í denn, trúi ekki öðru en að margir séu sammála um að það komi manni í stuð.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Leonard Cohen.

Er eitthvert eitt lag sem þú hefðir viljað hafa samið og hvað er spes við það? Let it Be. Tímalaus klassík. Annars væri ég reyndar frekar til í að hafa samið eitthvað af The Beach Boys lögunum.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég ætla aftur í tímann til ársins 1980 og bjóða pabba á Ivan Rebroff í Höllinni á Akureyri. Tónleikar sem pabbi sér enn eftir að hafa ekki farið á.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Þegar ég fékk að stjórna, örugglega Sálin hans Jóns míns. Annars minnir mig að ég hafi ekkert oft verið kosin tónlistarstjóri á rúntinum.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ég segi alltaf að ef ég yrði að hlusta á einn tónlistarmann restina af lífinu þá yrði það Leonard Cohen. Annars verð ég líka að nefna Blossom Dearie og Chet Baker.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Erfitt að nefna einhverja eina bestu plötu en vinur minn kynnti mig fyrir …Lifun plötu Trúbrots fyrir nokkrum árum. Sú plata er algjört meistaraverk. Og fyrst ég er nú í íslensku plötunum þá verð ég að nefna Gling-Gló.

Er eitthvað sem þú gerir alltaf þegar þú stígur á svið?

Já, ég hugsa: „F… it, you only live once!”

Toppurinn / Lagalisti Sigurdísar:
I Never Felt at Home / Trondheim Jazz Orchestra
Now At Last / Blossom Dearie
The 59th Street Bridge Song / Simon & Garfunkel
Mjóddin / Moses Hightower
Prélude in E-minor / F. Chopin
Orðin mín / Sigurður Guðmunds

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir