Vonskuveður og ófærð á Norðurlandi vestra

Það var orðið ófært yfir Þverárfjall um hádegi í gær sökum veðurs. MYND: SG
Það var orðið ófært yfir Þverárfjall um hádegi í gær sökum veðurs. MYND: SG

Það verður áfram vont óveður í dag og víða á Norðurlandi vestra eru vegir ófærir eða akstursskilyrði erfið. Bæði Vatnsskarð og Þverárfjall eru lokuð sem og Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði og þá er ófært fyrir Vatnsnesið og Siglufjarðarvegur er ófær frá Hofsósi en þar er stórhríð.

Reikna má með vonskuveðri í allan dag, snjókomu og hvassviðri, og því skynsamlegt að bíða af sér veðrið þurfi fólk að skjótast milli sýslna. Það dregur úr úrkomu þegar líður á kvöldið en norðanáttin verður stíf alveg fram á laugardagsmorgun.

Vegurinn yfir Þverárfjall lokaðist snemma í gærdag en vegurinn yfir Vatnsskarð síðar en þar sátu bílar fastir, meðal annars flutningabíll og húsbíll, sem draga þurfti í burtu skv. fréttum RÚV.

Skólahald í Varmahlíðarskóla og í Grunnskólanum austan Vatna í Skagafirði var fellt niður í dag vegna slæmra akstursskilyrða og óveðurs.

Hægt er að fá upplýsingar um færð á vegum á umferdin.is eða með því að hringja í 1777.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir