Á Þverárfjallsleið um Biskupskeldu :: Hörður Ingimarsson skrifar

Mynd í lok apríl 2023 Hvammshlíðarfjall nær Þverárfjall
Mynd í lok apríl 2023 Hvammshlíðarfjall nær Þverárfjall

Horft í austur frá bænum Þverá í Norðurárdal. Hvammshlíðarfjall rís hæst með bogadreginni fönn þar sem heitir Fosshlíð. Þar sem fönnin endar ofar miðri mynd tekur við ávöl dyngja í framhaldi Hvammshlíðarfjalls sem heitir Þverárfjall. Í forgrunni myndar er afleggjarinn frá norðri til suðurs heim að Þverá. Litlu ofar er Þverárgilið en samnefnd á rennur til suðurs í Norðurána. Ofan gilbarmsins má sjá gamla Þverárfjallsveginn sem kominn var um 1928.

Stefán Kemp, frá Illugastöðum, var kúskur tólf ára gamall við gerð þessa vegar. Þegar komið er upp hallann þar sem vegurinn hverfur við skaflendann er nú býlið Hvammshlíð gömul jörð þar sem fjalladrottningin Karólína Elísabetardóttir býr, margfræg fyrir baráttu sína við riðuna í sauðfé. Núverandi Þverárfjallsvegur fer yfir Þverárgilið á ræsi síðan í norðaustur með Þverárflám á vinstri hönd, en aldrei yfir sjálft Þverárfjallið. Leiðin liggur um Biskupskeldu mitt á milli Hvammshlíðarfjalls t.h. sem er 529 metra hátt og Pokafells t.v. sem er 406 metra hátt. Um „kelduna“ er upptakakvísl Engjalækjarins sem rennur til austurs síðan suðurs og aftur í austur og endar í Laxánni ytri í landi Illugastaða.

Það hefur vafist fyrir mörgum hvenær farið er yfir Þverárfjallið sem er í raun aldrei. Þar sem sá sem þessar línur ritar hóf skrif um Þverárfjallsveg fyrir rösklega hálfri öld var ekki um annan veg að ræða en þann gamla. Vegheitið festist í meðförum Alþingis og við framkvæmd nýs vegar með vegnúmerinu 744. Þar sem „Þverárfjallsvegur“ er hæstur er hann 322 m.y.s. á mjög stuttum kafla. Um 150-200 metrum norðaustan við vegstæðið þar sem það er hæst eru vatnaskil Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, þar er sjálf Biskupskeldan.

„Keldan“ þótti ill yfirferðar fyrrum, en Guðmundur biskup góði vígði kelduna og gerði hana ferðafæra að sögn. Það hefði verið veglegt að Biskupskeldan hefði borið nafn vegarins enda þekkt heiti vegfarendum um aldir sem úr Skagafirði fóru um Reiðskarð á Kolugafjalli á leið sinni til kauptíðar í Höfðakaupstað á Skagaströnd. Biskupskeldan er örstutt frá núverandi vegi. Heiti „Þverárfjallsvegar“ verður varla breytt úr þessu í Biskupskeldu. Frá „keldunni“ um Laxárdal og Laxárdalsheiði til Sauðárkróks eru 25 km en rösklega 20 km til Blönduós um Norðurárdal, „Æsku-dala-byggð“, Indíönu Albertsdóttur frá Neðstabæ og síðan um Refasveit til Blönduós.

/Hörður Ingimarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir