Aukin réttindi fatlaðs fólks

„Í dag er upphaf á nýjum tíma, betra Ísland fyrir alla er á teikniborðinu, og við, fatlað fólk höfum nú réttarstöðu sem gefur okkur tækifæri til að vera sýnileg, vera virk í samfélaginu, eiga stærra og betra líf, vera eins og annað fólk, segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði í aðsendri grein á Feyki.is.

Tilefnið er að Alþingi samþykkti í gær samhljóða þingsályktunartillögu Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá ályktaði Alþingi jafnframt að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017. Markmið þeirra er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra.

„Þetta er mikill áfangi í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Ég er þess fullviss að þessi samþykkt hvetur okkur enn frekar til góðra verka og til þess að ýta á breytingar á íslenskri löggjöf, svo fatlað fólk njóti fullra mannréttinda,“ segir utanríkisráðherra.

Við fullgildingu verður hægt að hefja verkefni tengd vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um skýrslugjöf til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna en það er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi.

 

„Það er í okkar höndum að standa vörð um réttindi okkar, að berjast fyrir betra samfélagi, að knýja á um aðgerðir til mannsæmandi lífs fyrir fatlað fólk, hjá stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga,“ segir Þuríður Harpa en grein hennar er hægt að nálgast HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir