Erfiðast að finna þær!

Bríet Rán - Aðsend mynd
Bríet Rán - Aðsend mynd

ÉG OG GÆLUDÝRIÐ | Bríet Rán og hamstrarnir Karólína og Kex

Bríet Rán Stefánsdóttir, 9 ára, býr í Stekkholti rétt fyrir utan Sauðárkrók ásamt móður sinni, Hilmu Eiðsdóttur, föður, Stefáni Inga Sigurðssyni og systur, Heiði Fanneyju. Í Stekkholti er að finna bæði hesta og kindur en Bríeti Rán langar að segja okkur aðeins frá hömstrunum Karólínu og Kex. Þær systur (Bríet og Heiður) voru svo heppnar að fá sinn hvorn hamsturinn í gjöf frá vinkonu Heiðar fyrir nokkrum árum síðan og hjálpuðust þær að við að gefa þeim og halda búrunum hreinum.

Hvað var skemmtilegast við að eiga hamstur? Það var skemmtilegast að leika við þær, þær voru svo mjúkar og gott að klappa þeim.

Hvað er erfiðast? Að finna þær þegar þær sluppu úr búrunum sínum og þegar þær dóu. Kex dó á undan en það var svo um einum mánuði seinna sem að Karólína fór í pössun til frænku okkar. Hún var búin að vera slöpp deginum áður, s.s ekki jafn fjörug yfir nóttina og hún var vön að vera, en hún fór í pössun þannig að við vorum undir það búnar að það gæti verið að hún væri að fara að deyja líka greyið því hún var orðin svo gömul.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Karólínu og Kexi? Einu sinni hvarf Karólína úr búrinu sínu. Við fundum hana ekki um morguninn þegar við vöknuðum, þó að við leituðum um allt og hlustuðum vel. Þegar við komum heim úr skólanum þá héldum við áfram að leita og þegar pabbi kom heim þá hjálpaði hann okkur. Við heyrðum svo skrítið hljóð frá eldavélinni að pabbi ákvað að opna ofan í sökkulinn undir eldavélinni og þar var hún, litla skinnið. Kex týndist líka einu sinni og öll sólblómafræin hurfu (uppáhald hamstra). Þegar við gáðum í rifuna við fataskápinn, þá sáum við hrúgu af sólblómafræjum þar. Þá var Kex búin að færa þau öll undir fataskápinn og lifði þar í mestu makindum. En þær fundust sem betur fer og fóru aftur í búrið sitt.

Takk Bríet fyrir að svara spurningunum um gæludýrin þín:)

 

Karólína að kúra í sófanum og Kex að naga gulrót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir