Norðurstrandarleið á góðum rekspöl

Ketubjörg á Skaga. Mynd: FE
Ketubjörg á Skaga. Mynd: FE

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að verkefnið Norðurstrandarleið eða Arctic Coast Way sé nú komið á góðan rekspöl. Verkefnið hefur það að markmiði að laða ferðamenn að strandlengjunni meðfram Norðurlandi, allt frá Húnaflóa til Bakkafjarðar, árið um kring, og hvetja þá til að staldra lengur við á svæðinu. Eins og Feykir.is hefur áður greint frá hefur Markaðsstofa Norðurlands umsjón með verkefninu með þátttöku 17 sveitarfélaga og ýmissa ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

Christiane Stadler, verkefnisstjóri Norðurstrandarleiðar, segir í viðtali við Morgunblaðið að verkefnið hafi fengið mjög góðar undirtektir hjá sveitarstjórnum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Helsta áherslan undanfarið hafi verið á innviðauppbyggingu, m.a. varðandi aðgengi að einstökum stöðum, yfirlit yfir ákjósanlegar gönguleiðir og staði með sérstakt aðdráttarafl, svo og öryggismál á fáförnum stöðum og fleira.

Á næstunni mun athyglin beinast sérstaklega að upplifun ferðamannsins af svæðinu og hvernig hægt sé að þróa leiðina og einstaka áfangastaði með tilliti til þeirrar upplifunar. Í dag munu sérfræðingar breska fyrirtækinu Blue Sail funda með Markaðsstofu Norðurlands um samvinnu á þessu sviði en fyrirækið býr yfir mikilli reynslu af ráðgjöf við uppbyggingu ferðamannaleiða í öðrum löndum. Í framhaldi af þessum fundi verður haldinn vinnufundur með aðilum af öllu svæðinu sem Norðurstrandarleiðin nær yfir og er svo reiknað með að næsta vor muni fulltrúar frá Blue Sail funda með heimamönnum á einstökum stöðum.

Meðal þeirra hugmynda sem komið hafa fram er að bjóða upp á sérstök vegabréf fyrir svæðið þar sem ferðamenn ættu kost á að safna stimplum frá þeim stöðum sem þeir hefðu heimsótt. Rætt hefur verið um tvær tegundir vegabréfa, annars vegar fyrir áfangastaði á Norðurstrandarleiðinni og hins vegar fyrir þá sem kjósa að fara sérstakar gönguleiðir. Ferðalangarnir gætu svo fengið sérstakt viðurkenningarskjal til staðfestingar á að þeir hefðu heimsótt alla áfangastaðina. Það eru nemendur í markaðsfræðum við Háskólann á Akureyri sem hafa þróað þessa hugmynd.

Að sögn Christiane Stadler standa vonir til að hægt verði að hleypa verkefninu formlega af stokkunum sumarið 2019.

 

Tengdar fréttir: Arctic Coastline Route - Strandvegur um Norðurland og Sveitarfélög í Húnavatnssýslum taka þátt í Arctic Coast Way

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir