Óska eftir afstöðu mennta- og menningarmálaráðherra til samnings um gamla bæinn í Glaumbæ

Haustblíða í Glaumbæ. Mynd: KSE
Haustblíða í Glaumbæ. Mynd: KSE

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd fagnar áhuga Þjóðminjasafns Íslands á gerð nýs samnings um safnstarfsemi í Glaumbæ og lýsir yfir áhuga sínum á áframhaldandi samstarfi og uppbyggingu starfsemi á staðnum. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar frá síðasta fundi hennar.

Fyrir tæpu ári sagði Þjóðminjasafn Íslands upp samningi sem þá var í gildi milli þess og Byggðasafns Skagfirðinga um rekstur varðveislu bæjarins. Var óskað eftir viðræðum um nýjan samning þar sem m.a. yrði tekið tillit til varðveislu bæjarins og þess að hluti aðgangseyris að bænum renni til frekari viðhalds og varðveislu hans m.a. vegna stóraukins gestafjölda. Í frétt sem birtist í maí í fyrra sagði Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður Þjóðminjasafn Íslands að stefnt væri að því að undirrita nýjan samning fyrir voropnun 2018.

Í fundargerð atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar frá sl. mánudegi segir:

„Byggðasafn Skagfirðinga og Þjóðminjasafn Íslands hafa í áratugi átt farsælt samstarf um varðveislu og sýningu á menningararfi Íslendinga með því að hafa m.a. gamla torfbæinn aðgengilegan fyrir áhugasama gesti og sýna þar jafnframt merkilega muni í eigu Byggðasafns Skagfirðinga. Að auki fer starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ fram í Áshúsi og Gilsstofu sem eru í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps. 

Sveitarfélögin í Skagafirði hafa verið traustur bakhjarl Byggðasafns Skagfirðinga og lagt verulega fjármuni til reksturs þess um langt skeið. Sveitarfélögin í Skagafirði hafa engin áform um annað en að fagleg og rekstrarleg starfsemi safnsins verði áfram tryggð og hafa metnað til þess að byggja enn frekar upp og bæta aðbúnað safnsins í Glaumbæ. Má þar nefna að jákvæðar viðræður hafa staðið yfir við Þjóðkirkjuna um deiliskipulag fyrir Glaumbæ, áform um uppbyggingu bílastæða, um byggingu nýs þjónustuhúss o.s.frv. 

Í ljósi áforma um breytingar og aukningar á tekjuöflun Þjóðminjasafns Íslands frá rekstraraðilum Byggðasafns Skagfirðinga, m.a. með beiðni um hlutdeild í aðgangseyri gamla torfbæjarins í Glaumbæ sem er fordæmisgefandi fyrir önnur hús í húsasafni Þjóðminjasafns á landsvísu, óskar atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd eftir afstöðu mennta- og menningarmálaráðherra til þeirra áforma. Jafnframt óskar nefndin eftir upplýsingum um hvort fyrirætlan ríkisins sé að draga úr eigin fjárveitingum til viðhalds húsasafns Þjóðminjasafnsins sem er nær allt staðsett á landsbyggðinni. 

Ákvörðun um fyrirliggjandi samningsdrög verður tekin þegar afstaða mennta- og menningarmálaráðherra liggur fyrir.“

Tengd frétt: Samningi um gamla bæinn í Glaumbæ sagt upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir