Ráðstefnan Hérna! Núna! á Blönduósi um helgina

Um næstu helgi verður ráðstefnan Hérna! Núna!  haldin í gömlu kirkjunni á Blönduósi. Ráðstefnan er ætluð fyrir lista- og handverksmenn á Norðurlandi vestra og er markmið hennar að aðilar úr lista- og menningarsamfélaginu hittist, kynnist og geti sagt frá og sýnt list sína og að vekja athygli á þeirri vinnu sem unnin er á svæðinu á sviði lista og menningar. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingasjóði SSNV og er unnið í samstarfi við Ferðamálafélag A-Hún.

Ráðstefnan hefst föstudaginn 27. apríl kl. 18:00 með listaspjalli þar sem þær Ragnheiður Björk Þórsdóttir, Jóhanna Pálmadóttir, Greta Clough og Melody Woodnutt verða með erindi en að því loknu tekur við dagskrárliður með lifandi hljóðlist frá Nesi listamiðstöð og kvikmynd eftir Tim Bruniges og Melody Woodnutt.

Dagskrá ráðstefnunnar.

Ráðstefnunni verður svo framhaldið á laugardegi og meðal þess sem þá er á dagskránni er heimsókn á Þekkingarsetrið, kynningar listamanna á vinnu sinni og einnig verður opin sýning í Kvennaskólanum á Blönduósi á verkum listamanna frá Norðurlandi vestra og listamanna sem dvelja í textílmiðstöðinni.

Í kynningu á ráðstefnunni segir að tilgangurinn með Hérna! Núna! sé að styðja við skapandi anda og hjálpa þátttakendum að sjá hvað er um að vera á svæðinu .... Hérna og Núna! Í framhaldi af ráðstefnunni mun Melody Woodnutt gefa út litla bók sem ber einnig heitið Hérna! Núna! þar sem komið verður á framfæri litum, sköpun og listrænu lífi á Norðurlandi vestra. „Ég vona að samveran með ykkur á viðburðinum 27. og 28. apríl muni hjálpa mér með vinnslu á þessari litlu listamanna útgáfu – Ég er viss um að það er mikið af sögum og fólki sem þarf að kynna!“ segir Melody Woodnutt verkefnastjóri hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi í kynningartexta um ráðstefnuna.

Dagskrána á ráðstefnunni má nálgast á vef Þekkingarsetursins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir