Hvað er að Stólunum!?

Drungilas í baráttunni í gærkvöldi. MYND: HJALTI ÁRNA
Drungilas í baráttunni í gærkvöldi. MYND: HJALTI ÁRNA

„Hvað er að ÍA?“ var spurning sem leikmaður ÍA, Óli Adda, fékk að heyra eftir að Skagamenn töpuðu sínum fyrsta leik þegar langt var liðið á eitt fótboltasumarið á síðustu öld. Símtalið kom frá Sveiflukónginum á Króknum. Kannski er kominn tími til að Sveiflukóngurinn hringi eitt vænt innanbæjarsímtal og beri upp sömu spurningu – og kannski ríkari ástæða til – en skipti ÍA út fyrir Stólana. Í gærkvöldi töpuðu nefnilega strákarnir okkar þriðja leik ársins – köstuðu frá sér sigrinum á lokamínútunum í leik gegn Grindvíkingum í Síkinu. Lokatölur voru 96-101 að lokinni framlengingu og meistararnir okkar í erfiðri stöðu í 8.-9. sæti Subway-deildarinnar.

Það var nú eiginlega ekkert sem benti til þess að Grindvíkingar tækju stigin með sér í gærkvöldi því Stólarnir náðu strax forystu í leiknum og leiddu í raun allt þar til 38 sekúndur voru eftir. Lið Tindastóls leiddi lungann úr leiknum með 10-15 stiga mun en líkt og í leiknum í Keflavík í síðustu viku þá reyndist fjórði leikhluti hörmung.

Stólarnir spiluðu lengstum frábæran leik og voru bara sprækir sem lækir. Þeir leiddu eftir fyrsta leikhluta, 30-20, og í hálfleik var staðan 54-42. Fjórtán stigum munaði fyrir fjórða leikhluta og þá á Tindastóll bara ekki að glutra leiknum úr höndunum á sér með þennan mannskap í Síkinu. Grindvíkingar eru hins vegar engin lömb að leika sér við og þeir sýndu í síðustu umferð, í leik gegn liði Álftaness, að þeir gefast aldrei upp. Þar snéru þeir svipaðri stöðu upp í sigurveislu og þeir endurtóku þann leik í Síkinu í gær. Stólarnir voru í góðum málum þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka, staðan 86-72, en það sem eftir lifði af venjulegum leiktíma gerðu heimamenn eitt stig en gestirnir 15!

Var ekki Pavel búinn að lækna liðið af þessum óskunda? Kane kom gestunum úr Grindavík yfir með þristi þegar 38 sekúndur lifðu leiks. Arnar fékk tvö víti en náði aðeins að setja annað niður og jafna leikinn, 87-87, og á lokasekúndunum klikkuðu tvö 3ja stiga skot gestanna. Því var framlengt.

Liðin skiptust á um að hafa forystuna í framlengingunni en Tóti túrbó kom Stólunum yfir, 96-94, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þá reyndist Grindavíkurliðið öflugra og það gerði síðustu sjö stig leiksins og tryggði sér dýrmæta sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni í vor. Vonandi ná Tindastólsmenn að tryggja sér þátttöku í henni en það er ekki sjálfgefið í sterkri Subway-deild.

Calloway, sem enn á eftir að upplifa sigurleik í Tindastólstreyjunni, var bestur í liði heimamanna, gerði 24 stig og tók 11 fráköst. Þórir átti sömuleiðis fínan leik, gerði 18 stig og tók 12 fráköst. Þá var Geks með 16 stig og Lawson 13. Arnar var ekki á eldi í gær og Pétur kom lítið við sögu því hann var svo snöggur að fá fimm villur. Í liði gestanna var Kane með 27 stig, Asisse 21 stig og Óli Óla 19.

Sem betur fer er leikur í Síkinu á sunnudag en þá koma KR-ingar og mæta liði Tindastóls í átta liða úrslitum VÍS bikarsins. Kannski kemur fyrsti sigur ársins þá?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir