Takk pabbi

Hrefna og Johan í Osló í ágúst síðastliðnum. AÐSEND MYND
Hrefna og Johan í Osló í ágúst síðastliðnum. AÐSEND MYND

Hrefna Jóhannesdóttir, skógræktarbóndi á Silfrastöðum og sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, féllst á að gera upp árið í Feyki. Hún situr einnig í sveitarstjórn Skagafjarðar og segir það vera afar gefandi og hvetjandi að umgangast gott og skemmtilegt fólk.

Hver er maður ársins? – Ég ætla að vera á persónulegu nótunum og segja pabbi. Hann hefur alltaf reynst mér vel en alveg sérstaklega í ár og fyrir það er ég afar þakklát. Takk pabbi.

Hver var uppgötvun ársins? – Kannski ekki beint uppgötvun ársins, en ég hélt áfram að kynnast nýju, hugmynda- og hæfileikaríku fólki. Það er afar gefandi og hvetjandi að umgangast gott og skemmtilegt fólk.

Hvað var lag ársins? – Get ekki hætt með AmMA.

Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Í vinnunni eru ótalmörg verkefni sem ég hélt að myndu taka styttri tíma eða vera einfaldari í framkvæmd. Ég stefni að því að klára þau á komandi ári. Við Johan ætluðum að ganga fyrir Heggstaðanesið en það er gott að eiga eitthvað að hlakka til. Og svo ætlaði ég að klára lopapeysuna sem ég byrjaði á en hún er enn á prjónunum. Gamla peysan fannst músétin í kjallaranum. Vonbrigði ársins: kötturinn Sorbus.

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Jarðhræringar á Reykjanesskaga og stríðsátök sem ekkert lát er á. Á jákvæðari nótunum þá ferðaðist ég bæði innanlands og utan með fjölskyldu minni og vinum. Það eru margar eftirminnilegar stundir frá líðandi ári sem munu fá sitt pláss í minningabankanum.

Hvaða þrjú orð lýsa árinu best – af hverju? ­Sorg, gleði og ný tækifæri. Sorgin og gleðin eru samrýmdar systur og í kjölfar þeirra gefast oft ný tækifæri.

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Það er ótal margt sem á heima á áramótabrennunni en ég ætla að vera smá leiðindapúki og segja flugeldar. Við eigum margar skemmtilegar áramótahefðir aðrar sem valda hvorki óþarfi streitu hjá dýrunum okkar né hafa neikvæð áhrif á heilsufar viðkvæmra eða umhverfið.

Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Án þess að gera lítið úr öðrum nauðsynlegum framkvæmdum í okkar góða samfélagi, þá myndi ég gleðjast óskaplega við að sjá framkvæmdir hefjast við byggingu nýs leikskóla í Varmahlíð.

Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir