Það kennir margra grasa í Græna salnum í kvöld

Sumum finnst ekki vera jól á Sauðárkróki nema Jólamót Molduxa fari fram. Það má kannski segja að önnur hefð sé að skapast en það er tónleikahald í gömlu góðu Bifröst, milli jóla og nýárs, sem kallast Græni salurinn en þá stígur á stokk hópur sprækra tónlistarmanna úr héraði, bæði landsþekktir og minna þekktir, og skemmta sér og gestum með alls konar konfekti. Feykir tók aðeins stöðuna hjá Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni tónleikahaldara.

Er eitthvað að segja um tónleikana Græni salurinn? „Já, þetta verða fjölbreyttir tónleikar,“ svarar Ægir og tekur til að tíu atriði verði á sviðinu í Bifröst. „Gömul dansiballahljómsveit,Status, mætir á sviðið eftir áratuga hvíld og strýkur rykið af strengjunum. Reynir Snær mætir með nokkra landsþekta gítara og Dr Úlfar Ingi Har frændi hans smíðar nokkra þétta grunna. Danshljómsvt Dósa, Skólahljómsveitin, Ringbert, JESSS, Uncle blues, Tríó Pilla Prakkó, Naglasúpa og Kór, Skottubandið og Örvænting slást um hylli áhorfenda,“ segir Ægir léttur og bætir við að í hópi flytjenda megi finna tvíbura, bræður, feðgin, mæðgin, frændur, systkini og vini.

Það er því eiginlega stranglega bannað að missa af Græna salnum í kvöld. Tónleikarnir standa í þrjá tíma og 58 minútur, hefjast kl. 20:32 og lýkur því um hálf eitt ef öll plön standast. Aðgangseyrir er þúsund kall í seðlum en hraðbanki er í næsta húsi þannig að það ætti ekki að vera ves.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir