Japanskur kjúklingaréttur og Súkkulaði-karamelludraumur

Matgæðingarnir Hjálmar og Ingibjörg með son sinn. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Hjálmar og Ingibjörg með son sinn. Mynd úr einkasafni.

„Við kjósum að hafa eldamennskuna fljótlega og þægilega og deilum því með lesendum þessum bráðgóðu og einföldu uppskriftum,“ segja matgæðingarnir í 7. tölublaði Feykis árið 2015, þau Hjálmar Björn Guðmundsson og Ingibjörg Signý Aadnegard, á Blönduósi. 

Hjálmar og Ingibjörg Signý bjóða upp á gómsætar uppskriftir af japönskum kjúklingarétti og súkkulaði-karamelludraumi.

Aðalréttur
Japanskur kjúklingaréttur

 4 kjúklingabringur 

Sósa:
½ bolli olía
¼ bolli balsamic edik
2 msk sykur
2 msk sojasósa 

Aðferð:
Þetta er soðið saman í um eina mínútu. Kælt og hrært í annað slagið meðan það kólnar (ef ekki er hrært þá skilur sósan sig). 

Þurrristað á pönnu:
1 poki núðlur, ekki kryddið. Núðlurnar eru brotnar í smáa bita og þær ristaðar fyrst
3-4 msk möndluflögur eða eftir smekk
1-2 msk sesamfræ eða eftir smekk 

Þetta er síðan kælt. 

Grænmeti:
1 poki klettasalat
tómatar eftir smekk (kirsuberja tómatar)
1 mangó
1 lítill rauðlaukur 

Aðferð:
Kjúklingabringurnar eru skornar í ræmur og snöggsteiktar í olíu. Thai sweet chili sósu er hellt yfir og látið malla í smá stund.
Allt er svo sett í skál í þessari röð: 

grænmeti
núðlur, möndlur, sesamfræ
kjúklingaræmur
sósa

Eftirréttur
Súkkulaði-karamelludraumur 

50 g smjör
100 g  súkkulaði 70%
3 egg
3 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1 ½ dl hveiti
1 tsk salt 

Aðferð:
Bræðið smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði. Þeytið egg og sykur og blandið vanilludropunum saman við. Því næst er þurrefnunum blandað varlega saman við eggjablönduna. Að lokum er öllu blandað saman, deiginu hellt í form og kakan bökuð í 15 mínútur við 175°C. 

Á meðan kakan bakast til hálfs er eftirfarandi hitað í potti: 

50 g smjör
1 dl púðursykur
2 msk mjólk 

Aðferð:
Setjið smjör og púðursykur í pott. Mjólkin er sett síðust og blandan látin sjóða í um eina mínútu. Kælið blönduna örlítið. Þegar kakan hefur verið í ofninum í 15 mín. er hún tekin út. Stráið pekanhnetum og kasjúhnetum yfir kökuna og hellið púðursykurskaramellunni yfir. Bakið áfram í aðrar 15 mínútur.

Kakan er best nýbökuð og má alls ekki bakast of lengi því hún á að vera blaut í miðjunni. Fallegt er að fegra kökuna með jarðaberjum. Berið fram með ís eða þeyttum rjóma. 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir