„Born and Raised með John Mayer skiptir mig miklu máli“ / REYNIR SNÆR

Reynir Snær Magnússon fæddist árið 1993, alinn upp á Sauðárkróki af Aðalheiði Reynisdóttur og Magnúsi Ingvarssyni. Hljóðfærið hans er gítar. Spurður um helstu tónlistarafrek svarar hann: „Ég er nú ekki viss hvað er vert að nefna nema kannski Músíktilraunir 2012. Var þar valinn Gítarleikari Músíktilrauna sem gaf mér mikið spark til að leggja þann metnað í gítarleik sem ég geri í dag.“

Reynir býr nú í Reykjavík en er i jazzgítarnámi i Tónlistarskóla Garðabæjar og stefnir á miðpróf i vor. „Ég er að spila i nokkrum böndum en helst mætti nefna Körrent, sem spilar frekar rokkslegið popp, og Prime Cake sem er "instrumental" fusion kvartet. Svo að sjálfsögðu er ég í alskagfirsku ballsveitinni Hljómsveit kvöldsins.“

Uppáhalds tónlistartímabil? Erfitt að velja. Góðir hlutir að gerast á öllum tímabilum.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Eitthvað gott fusion á borð við Snarky Puppy eða Yellowjackets, eða bara vel samin og útsett músík af öllum toga.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það fyrsta sem kemur til huga er Riggarobb plata Papa og kannski Best of the 50’s safnplötur, Queen o.fl. sem var spilað í bílnum.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ætli það hafi ekki verið Powerage með AC/DC. Það var allavega fyrsta platan sem ég kunni virkilega að meta.

Hvaða græjur varstu þá með? Ódýran ferða CD spilara og headset.

Hvert var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? You Shook Me All Night Long með AC/DC. Stend fast á því að þetta sé eitt af bestu rokk-lögum sem samið hefur verið. Sýnir að einfaldleikinn vegur þyngst þegar kemur að lagasmíð.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég get ekki leyft einu lagi eyðileggja heilan dag!

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Held ég eigi nú bara ekkert uppáhalds Júrólag þó sum þeirra séu nú alveg ágæt. Get svosem bara sagt Nína og Fly on the wings of love til að segja eitthvað.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Fyrir mig væri það Snarky Puppy, ég veit samt ekki hvernig aðrir myndu fíla það.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Satt best að segja þá myndi ég helst ekki vilja heyra neitt.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Væri helst til í að fara á eitthvað lítið “venue” í New York að sjá John Mayer Trio framkvæma einhvera snilld. Lóa, kærastan mín, væri langbesti tónleikafélaginn á þá tónleika.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Stevie Ray  Vaughan & Double Trouble og Eric Clapton.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Þeir eru orðnir svo margir að það er ómögulegt að velja einn. Akkúrat þessa stund væri það samt gítarleikarinn Robben Ford. Fékk þann heiður að setjast niður með honum og spjalla þegar hann kom til landsins í vetur og hafði það mikil áhrif á mig.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Dettur nú engin í hug sem mér þykir vera best en Born and Raised með John Mayer er plata sem skiptir  mig miklu máli. Svo þykir mér hún líka vera svo vel unnin.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
What about me / Snarky Puppy
And finally / The Aristocrats
Donna Lee / Charlie Parker
Blue Bossa / Dexter Gordon
Bold as love / John Mayer Trio (Hendrix cover)
Goin’ home / Yellowjackets

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir