Körfuboltasamfélagið á Króknum :: Áskorandapenninn Jón Brynjar Sigmundsson brottfluttur Króksari

Ég ætla að byrja á því að þakka Kalla, móðurbróður mínum, fyrir að skora á mig að skrifa þennan pistil. Þegar þetta er ritað er fyrsti leikur í einvíginu á milli Stóla og Vals búinn og unnu Stólar, eins og allir vita, fyrsta leikinn og tóku heimavallarréttinn af Valsmönnum.

En þessi pistill mun nú ekki fjalla um þetta einvígi heldur mun þessi pistill fjalla um uppbyggingu körfuboltans á Króknum og í apríl síðastliðnum voru liðin 30 ár síðan 10. flokkur Tindastóls varð Íslandsmeistari á því herrans ári 1993. Liðið var skipað, fyrir utan þann sem þetta ritar, þeim Óla Barðdal, Arnari Kárasyni, Guðjóni Gunnarssyni, Ragnari Má Magnússyni, Björgvini Benediktssyni, Þórarni Eymundssyni, Hlyni Zophaníassyni, Páli Ágústi Jenssyni, Þráni Björnssyni, Smára Birni Stefánssyni, Hirti Jónssyni og Gunnari Búasyni og þjálfari var Kári Marísson. Þetta var einvalalið leikmanna sem voru stríðsmenn inni á vellinum og náðu alltaf vel saman.

Flestir byrjuðum við að æfa þegar fyrsta alvöru uppbygging körfuboltans á Króknum fór af stað, þegar íþróttahúsið var vígt í janúar árið 1986, og má segja að sprenging hafi orðið í áhuganum þegar meistaraflokkur Tindastóls vann sér sæti í úrvalsdeildinni árið 1988. Öll þessi uppbygging tók sinn tíma og fórum við, sem eru fæddir árið 1977 í fyrsta skipti á Íslandsmót þegar við vorum í 8. flokki undir stjórn Guðmundar Jenssonar og gekk þetta stundum frekar brösulega á fjölliðamótunum en alltaf náðum við að halda okkur uppi í A riðli. Árið eftir vorum við í 9. flokki undir stjórn hins tékkneska Milan Rozanek og gekk það tímabil mun betur, enduðum við á því að spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og töpuðum fyrir Keflavík. Einnig þennan vetur vorum við nokkrir sem spiluðum uppfyrir okkur með leikmönnum fæddum árið 1976 og það er mín skoðun að sú ráðstöfun hafi haft mikið að segja með framfarir liðsins í 10. flokki árið eftir.

Í 10. flokki gengu fjölliðamótin ágætlega en svo gerðist það í úrslitakeppninni eins og virðist gerast alloft þegar úrslitakeppni byrjar á vorin að þá springa lið út og átti það sannarlega við í okkar tilfelli og enduðum við sem Íslandsmeistarar í 10. flokki árið 1993. Þarna sannaðist hve gríðarlega miklu máli skiptir að hafa góða aðstöðu til æfinga þótt íþróttahúsið á þeim tíma myndi ekki standast kröfur í dag til æfinga og keppni þá var þetta gríðarlega mikil bylting á þeim tíma. Æft var og keppt í gamla íþróttahúsinu til ársins 1997 en þá var loksins lokið við endanlega útfærslu af íþróttahúsinu eins og við þekkjum það í dag. Þá varð önnur bylting, húsið stækkaði gríðarlega mikið sem þýddi að hægt var að fjölga æfingum og fjölga flokkum og hefur allt yngriflokkastarf Tindastóls verið til mikillar fyrirmyndar og hafa margir titlar unnist undanfarin ár.

Þetta starf hefur skilað af sér frábærum leikmönnum í efstu deild eins og Pétri Rúnari, Viðari og Ragnari svo dæmi sé tekið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að framtíðin er gríðarlega björt ef rétt verður haldið á spilunum og Tindastóll verði áfram í fremstu röð, bæði í meistaraflokki karla og kvenna og yngri flokkum.
Ég ætla að skora á einn af æskuvinum mínum Atla Björn Þorbjörnsson að koma með næsta pistil.

Áður birst í 19. tbl.  Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir