Bítlarnir eru alltaf í fyrsta sæti / BJÖRN MAGNÚS

Björn Magnús glaðbeittur með geisladiska.
Björn Magnús glaðbeittur með geisladiska.

Björn Magnús Árnason er alinn upp á Suðurgötunni á Króknum en býr nú á  Eggertsgötunni í Reykjavík. Hann er fæddur 1985 og hefur spilað á gítar frá því hann var 12 eða 13 ára, líka banjó sem hann segist hafa verið alltof latur við að spila á. Hvað varðar helstu tónlistarafrek sín segir Björn Magnús: -Lenti einhvern tíma í 2. sæti á órafmagnaðri tónlistarkeppni í MA auk þess að hafa sungið Nínu á söngvakeppni þar sem við lentum óformlega í 4. sæti. Annars er það alltaf afrek útaf fyrir sig þegar við félagarnir frá Króknum tökum Twist and Shout í partíum. Það er móment sem enginn ætti að fara á mis við.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ætli það sé ekki 7. áratugurinn.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hugsa að það sé nútíma íslensk tónlist. Mugison, Ásgeir Trausti, Valdimar, Of Monsters and Men og Úlfur Úlfur fá mann alveg til að hækka í græjunum.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var allt mögulegt og engin sérstök tegund. Klassískt rokk hefur alltaf verið mikið spilað, Bítlarnir, Stones, Van Morrison, Kim Larsen, en líka country, karlakórar og raunar allt á milli himins og jarðar.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var líklega A Hard Days Night með Bítlunum þegar ég var 8 eða 9 ára. Held nú að móðir mín hafi lagt út fyrir plötunni enda var þetta gríðarlega þýðingarmikill þáttur í uppeldinu.

Hvaða græjur varstu þá með? Þá notaðist ég við Bang og Olufsen græjurnar hans pabba. Eðal græjur sem eru orðnar 40 ára gamlar og svínvirka enn þann dag í dag.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ætti ég hörpu með Karlakórnum Heimi.

Valspurning: Bítlarnir eða Bob Dylan / Oasis eða Blur / Wham! eða Duran? Bítlarnir eru alltaf í 1. sæti en Bob Dylan er náttúrulega snillingur.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Angel og Is it True skipa alltaf sérstakan sess en Nína er líklega uppáhalds.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Bítlana, Rolling Stones og Creedence. Með þessar þrjár sveitir á fóninum, og Ljótu hálfvitana inn á milli, er auðvelt að halda almennilegt rústpartý.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Platan Golden Heart með Mark Knopfler er upplögð fyrir þannig tilefni.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi á einhverja lókal krá í Dublin, á tónleika með The Dubliners og tæki starfsmenn Skagafjarðarveitna með mér. Alltaf áhugavert að vera með þeim innan um almenning, sérstaklega þegar menn eru búnir að væta kverkarnar nokkuð hraustlega og fara að segja sögur. Er raunar á leiðinni á tónleika í Hörpunni með Bootleg Beatles ásamt Jóhanni nokkrum Helgasyni frá Reynistað. Það verður eflaust mikil upplifun.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Hefði alveg verið til í að vera John Lennon í svona mánuð árið 1965 eða 1966. Annars dreymir mig um að vera Mugison í hverri viku.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Tjahh... maður spyr sig. Það hlýtur að vera platan Skála og syngja með Álftagerðisbræðrum. Abbey Road er svo næstum því jafngóð.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
Murr Murr / Mugison
Nothing Else Matters / Metallica
Jumpin‘ Jack Flash / Rolling Stones
Wonderwall / Oasis
Ljótir hálfvitar / Ljótu hálfvitarnir
Help! / The Beatles

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir