.....þá hefði hún alveg örugglega gefið okkur Sveini kexið. - Hinir brottflognu

Guðríður ÓlafsdóttirHver er maðurinn? Guðríður Ólafsdóttir

Hverra manna ertu? Dóttir Ástu Karls ( bankamær) og Óla Sveins (læknir), systir Sveins, Kalla og Ólafar.

Árgangur? Eðalárgangur 1961 en skólaárgangur 1960  

Hvar elur þú manninn í dag? Bý í Suðurhlíðum Reykjavíkur

Fjölskylduhagir?  Stök alla tíð

Afkomendur?  Ástríður Wiessner sem er fædd 1991

Helstu áhugamál?     Hlægja, synda, ganga, horfa, lesa, lifa lífinu lifandi.

Við hvað starfar þú?  Ég er bankaráðskona Landsbankans á Íslandi ( NBI hf.) sem og stjórnarmaður í spútnikfélaginu Hafmynd ehf.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ……………….Krókurinn, hvað annað

Það er gaman…………………….eldast og verða spök

Ég man þá daga er……………………þegar maður tók miða í mjólkurbúðinni og sá svo mjólkina þyrlast oní brúsa og Jói fisk stóð vaktina í fiskbúðinni.

Ein gömul og góð sönn saga………………þessi rifjast upp við að lesa minningar Hjördísar áskoranda míns. Svo var að við systkin sóttum sunnudagaskóla hvurn sunnudag sem gaf hjá séra Þóri. Einn sunnudag eftir messu og velsungið Áfram kristmenn, krossmenn var bið eftir því að föðurmyndin sækti ómegðina. Það var brugðið á það ráð að fara með prestsdætrunum, Ellu og Tótu, heim á prestsetrið þar sem öngvan fullorðinn var að finna. Einhverjar framkvæmdir voru hjá þeim sæmdarhjónum í eldhúsi þannig að í borðstofu var búið að hlaða upp ýmsu matarkyns og eldhúsdóti. Nema hvað mín var arfasvöng og meðan þau hin voru öll uppá svefnlopti fékk ég Svein tvíbura minn í lið með mér og við hnupluðum áteknum Figroll pakka, gráfíkjukexi sem okkur þótti syndsamlega gott!!. Ég ætlaði nú að vera pen og fá mér einar tvær en það fannst bróður lítið til að taka þannig að svo fór að við kláruðum úr pakkanum. Þegar syndaselir komu heim var Karl bróðir vor fljótur að segja til um skammarstrik okkar því sést hafði til iðju okkar. Nú man ég ekki tiltal móður okkar á þeirri stundu nema að hún fór með okkur seinna sama dag eða daginn eftir til að biðjast fyrirgefningar og lét okkur bíða drúgjan tíma úti bíl meðan hún skeggræddi stöðu mála við frú Dagbjörtu guðmóður okkar Sveins. Ég gafst upp að lokum, bar að dyrum og Dagbjört tók á móti mér í stiganum. Hún fyrirgaf mér stuldinn sem og Sveini sem má vera að hafi verið þarna nokkrum skrefum á eftir mér. En ég sagði henni að ég vissi það alveg, ef hún hefði verið heima þá hefði hún alveg örugglega gefið okkur Sveini kexið. Hún væri svo góð.

Spurning Hjördísar Stefáns.........

Sem sumarstarfsmenn í gamla Búnaðarbankanum upplifðum við það að kaffitímanum var skipt upp eftir kynjum…. Komdu með eina góða kenningu sem gæti útskýrt af hverju?

Tilgáta nr.1 er að þetta var vani.

Tilgáta nr. 2 að þeir héldu að þær væru eitthvað pínu pons öðruvísi en þeir.

Tilgáta nr. 3. Að þeir hafi verið pínu rosalega hræddir við okkur breddurnar sem fórum um sem hvítur stormsveipur á hverju vori og dvöldum langt fram á haust.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn………….  Helga Dadda (Helga Stefnía Magnúsdóttir)  Hver gaf flest olbogaskotin í Búnaðarbankanum í denn? 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir