Hugrún og Aldís María klárar í slaginn

Knattspyrnudeildin er hæstánægð með að hafa endurnýjað samninga við Hugrúnu og Aldísi Maríu. SAMSETT MYND
Knattspyrnudeildin er hæstánægð með að hafa endurnýjað samninga við Hugrúnu og Aldísi Maríu. SAMSETT MYND

Áfram heldur knattspyrnudeild Tindastóls að bæta perlum á sumarfestina sína. Í gær var tilkynnt um að tveir máttarstólpa liðsins síðustu árin hefðu endurnýjað samninga sína við Bestu deildar lið Tindastóls. Þetta eru þær ofurstúlkur, Hugrún Pálsdóttir og Aldís María Jóhannesdóttir, sem báðar eru dugnaðarforkar á vellinum og fljótari en eldingin.

Hugrún Pálsdóttir, miðdóttir Palla og Guðnýjar, hefur spilað 220 leiki fyrir Stólastúlkur og skorað 40 mörk í þeim. Hún hefur verið fastamaður í liði Tindastóls í gegnum fótboltaævintýri Stólastúlkna síðustu árin en mátti sætta sig við að sitja, örugglega of mikið fyrir sinn smekk, á bekknum síðari hluta keppnistímabilsiins í fyrra.

„Já, ég er ánægð með að hafa endurnýjað þó ég hafi þurft að hugsa mig smá um áður en ég tók ákvörðunina,“ sagði Hugrún þegar Feykir spurði hvort hún væri ánægð með að hafa endurnýjað samninginn. „Ég er orðin mjög spennt fyrir sumrinu. Síðasta tímabil var langt frá því að vera mitt besta þannig að ég er orðin mjög spennt að sanna mig á ný og eiga betra tímabil með mínu liði,“ bætir Hugrún við.

Aldís María kom til Tindastóls frá Hömrunum árið 2020 og hefur spilað 89 leiki og skorað 16 mörk á þeim tíma. Hún átti sitt langbesta tímabil með liði Tindastóls í fyrra, var meiðslalaus og hún og Murr náðu upp góðri samvinnu í fremstu víglínu.

„Það er mjög ánægjulegt fyrir stjórn Knattspyrnudeildar Tindastóls að kjarninn í liðinu frá því á síðast ári sé að endurnýja samninga,“ segir í tilkynningu frá knattspyrnudeild Tindastóls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir