Af jólaböllum í Fljótum

Fjölmenni á jólaballi í Ketilási 2022. MYND: HALLDÓR GUNNAR
Fjölmenni á jólaballi í Ketilási 2022. MYND: HALLDÓR GUNNAR

Það er tími jólaballanna þessa dagana en það má fullyrða að heldur hafi þeim nú fækkað frá því sem áður var. Í skemmtilegri færslu á Facebook-síðunni Sveitin okkar – Fljótin segir Halldór Gunnar Hálfdansson á Molastöðum frá því að í fyrsta sinn sem hann hitti tengdaforeldra sína þá hafi það verið á jólaballi í Ketilási. „... og þá á ég ekki við fjölskyldujólaball, heldur eitthvað sem minnti á þorrablót með fullmannaðri hljómsveit, hinnum rómuðu Gautum frá Siglufirði.“

Halldór segir að það hafi lengi verið til siðsí Fljótum að halda skemmtun að kvöldi annars dags jóla til að fjármagna fjölskyldujólaballið sem fór fram fyrr um daginn. „Þetta fannst mér alveg magnað en fljótlega eftir að ég flutti í Fljótin 1997 var hætt að halda þessi fullorðins jólaböll,“ segir Halldór sem minnir að hann hafi verið í síðustu nefndinni. „Við fengum Inga Eiríks, ættaðan frá Stóru-Reykjum, til að spila og það mættu örfáir ... Ingi spilaði samt hálft prógrammið þangað til við gáfum honum frí upp úr hálf eitt um nóttina,“ segir hann.

Nú á annan dag jóla var haldið fjölskyldujólaball á Ketilásnum að lokinni messu á Barði „... og gæti ég trúað að um 80 manns hafi mætt en ég hef reyndar aldrei getað talið fólk (og kindur) með mikilli nákvæmni. Númi Elvar Jónsson, tengdafaðir minn, man eftir að hafa farið sem unglingur á fjögur jólaböll í Fljótum sömu jól, líklega á sjötta áratugnum. Fyrst í Haganesvík, síðan á Ketilási, þar eftir í bragganum á Skeiðsfossi og að lokum í Miðgarði í Stíflu,“ segir Halldór og nefnir í framhaldinu að þeim hafi fækkað jólaböllunum sem haldin eru til sveita í Skagafirði. „En við höldum fast í okkar og vonandi mun svo verða áfram í framtíðinni, því ekki mætir eingöngu innansveitarfólk á þessi böll, heldur einnig brottflutt Fljótafólk með fjölskyldur sínar og gefur það skemmtuninni skemmtilegan brag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir