Dýrið og Blíða :: Þorgerður Þóra Hlynsdóttir skrifar

Úr sýningunni Fríða og Blíða. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Úr sýningunni Fríða og Blíða. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Eftir níu ára hlé setti Leikfélag Blönduóss upp leikritið Dýrið og Blíða eftir Nicholas Stuart Gray. Sigurður Líndal leikstýrði verkinu. Að þessu sinni var leikhópurinn bæði ungur og óreyndur. En það var hvorki að sjá né heyra. En byrjum á byrjuninni.

Þegar ég kom inn í salinn leið mér eins og ég hafi opnað fallega ævintýrabók og lent á fallegustu blaðsíðunni. Sviðsmyndin var hreint út sagt listaverk. Hvert einasta smáatriði var upp á 10,5. Litirnir og öll umgjörðin sveipuðu gamla sviðið ævintýraljóma. Svo hófst leikurinn. Nornin Gala lék stórt hlutverk og gerði það með glæsibrag. Minnti mig stundum á Soffíu frænku í Kardimommubænum. Doddi litli dreki var algjörlega frábær og talaði bæði hátt og skýrt. Hann var svo sannfærandi að ég trúði því af heilum hug að hann hefði raunverulega getað flogið. Frú Klemma og synir hennar Jens og Jakob kitluðu hláturtaugarnar og það hefði ekki verið hægt að velja betur í hlutverkin. Það sama má segja um Blíðu. Það geislaði af henni góðmennskan. Skuggarnir tveir gerðu það að verkum að aldrei var dauður punktur í sýningunni. Þeir læddust um sviðið með mjúkar hreyfingar eins og kettir, voru hrekkjóttir, skemmtilegir og gáfu hananum rödd sem seint gleymist. Haninn var sumsé leikbrúða, en hefði alveg getað verið fenginn að láni frá næsta bæ. Síðastur en alls ekki sá sísti var Dýrið/prinsinn. Hann sýndi stórleik. Manni hefði ekki dottið í huga annað en að hann hefði verið fenginn að láni úr Þjóðleikhúsinu. Hann skipti um ham í orðsins fyllstu merkingu og ég trúi ekki öðru en að hann eigi eftir að sýna landsmönnum hvað í honum býr.

Það má með sanni segja að leikstjórinn hafi náð því allra besta fram í hverju einasta leikara. Það hefði ekki verið hægt að velja betur í hlutverkin. Hver einasti leikari fékk hlutverk sem var eins og það hefði verið skrifað með akkúrat þau í huga. Það er varla hægt að setja út á nokkurn skapaðan hlut nema stundum hefði mátt heyrast aðeins hærra í sumum leikurum. En annars stórkostlegt leikrit með framúrskarandi leikurum sem ég væri alveg til í að sjá aftur.

Leikfélag Blönduóss, takk kærlega fyrir mig!

Þorgerður Þóra Hlynsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir