Þingmenn halda á eigin fjölmiðli

Flottir feðgar í fjósinu á Vestri-Rein.
Flottir feðgar í fjósinu á Vestri-Rein.

Þingmaðurinn  Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er búfræðingur og bóndi á Vestri-Reyni í Hvalfjarðarsveit. Hann er kvæntur Lilju Guðrúnu Eyþórsdóttur og eiga þau þrjú börn. Ásamt því að starfa við búskap gegndi Haraldur formennsku í Bændasamtökunum Ísland í níu ár áður en þingmennskan kallaði. Haraldur segir að áhugi hans á pólitík hafi kviknað árið 1978 við alþingiskosningar sem þá fóru fram en árið 2013 settist hann fyrst á þing. Haraldur er þingmaður Feykis að þessu sinni.

Hvaða máli værir þú líklegur til að beita þér fyrir á Alþingi framar öðrum?  -Eftir þennan tíma á Alþingi hef ég kannski helst unnið að atvinnumálum, fjarskiptum, samgöngum og ríkisfjármálum.

Telur þú að stjórnmálaumhverfið hafi breyst eða sé að breytast frá því sem áður var?  -Ég tel að stjórnmálaumhverfið haldi áfram að breytast. Reyndar held ég að nú geti komist á ákveðinn stöðugleiki. Umhverfið hefur tekið miklum stakkaskiptum frá 2008 en nú er mikilvægt að hefja nýjan kafla. Áratugurinn frá hruni hefur verið erfiður. Nú erum við hinsvegar kominn á góðan stað í efnahagsmálum og búum við mikla hagsæld. Það er mikilvægt að pólitíkin öðlist sama stöðugleika.

Telur þú að fjölmiðlar, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar, hafi áhrif á skoðanir og gjörðir þingmanna?  -Samfélagsmiðlar breyta umræðu en hvort þeir breyti skoðun þingmanna veit ég ekki. Megin breytingin er að nú halda þingmenn á eigin fjölmiðli ef svo má segja. Þetta er vandmeðfarið tæki og ber að umgangast af virðingu.

Hvaða verkefni bíður helst íbúa Norðvesturkjördæmis að þínu mati?  -Það er hinn glataði áratugur í framkvæmdum – sem ég kalla stundum.  Við eigum mikil verkefni í vegamálum. Í að bæta aðstöðu til atvinnuuppbyggingar. Nú eru mjög jákvæð teikn um sókn og breytta stöðu í íbúaþróun í kjördæminu. Það er nauðsynlegt að fylgja því eftir.

Hvaða málefni telur þú að brenni helst á íbúum Norðurlands vestra?  -Það eru atvinnu- og búsetumál.  Eins og t.d. samgöngur. Norðurland vestra er að ná frábærum áföngum í fjarskiptamálum með ljósleiðaravæðingu sveitanna. Á norðurlandi vestra er sauðfjárrækt burðar atvinnugrein og því er kreppa sem er í þeirri búgrein mjög afdrifarík. Það skiptir því verulegu máli að skapa henni traustari umgjörð. Ekki að ég nefni þetta í mikilvægisröð þá skiptir stórmáli hvernig tekst að efla heilbrigðisþjónustu á svæðinu.

Hvaða áhugamál áttu fyrir utan pólitíkina?  -Það er búskapur sem má kannski flokka sem áhugamál meðan starfað er í pólitíkinni. Ég vinn talsvert á mínu búi þegar stundir gefast frá pólitík. Áhugamál önnur eru ekki fyrirferðarmikil.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn? -Það er Karlakór Bólstaðarhlíðahrepps.

Hver er uppáhalds kvikmyndin?  -Með allt á hreinu.

Hvert er uppáhalds íþróttafélagið?  -ÍA

Ein góð saga í lokin:  Þegar aldurinn færist yfir þykir mér vænt um atvik sem ég lenti í sem nýkjörinn formaður BÍ – þá 38 ára. Ég mætti í sjónvarpsviðtal á Rúv og var vísað á biðstofu.  Síðan leið og beið.  En annað slagið kom fram kona til að sjá hverjir væru að bíða í sófanum.  Síðan varð ég var við að stress hafði tekið völdin í hljóðstofunni því formaður Bændasamtakanna var ekki mættur í viðtalið og umsjónar maður þáttarins kom fram og spurði hvort ég væri nýr formaður BÍ.  Já, sagði ég og konan sem hafði stöðugt verið að athuga á biðstofunni varð að orði að það gæti ekki verið því ég væri svo ungur. Hún hafði á átt von á gömlum kalli. Svona var ímyndin af bændaforingja sterk á þeim tíma en sagan alltaf að verða betri þó mér hafi nú ekki verið skemmt á þeim tíma.

Áður birst í 1. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir