Auglýsing um lausa íbúð fer í fínustu taugar Geirlaugs

Geirlaugur Schram húsasmíðameistari hafði samband við Dreifarann og var mikið niðri fyrir. Geirlaugur hefur verið lengi í byggingaiðnaðinum og þó hann sé kominn á sjötugsaldurinn gefur hann ekki þumlung eftir, er mættur fyrstur á morgnana. „Fyrstur á staðinn á morgnana og fyrstur heim, segja strákarnir, þetta eru ágætis grey en það þarf að herða í þeim flestum þegar þeir eru að byrja.“

Er eitthvað að gera Geirlaugur? -Nei, það er ekki nokkur andskoti að gera, algjör helvítis ládeiða endalaust. Ég sé ekki hvernig ég á að geta haldið þessari vitleysu gangandi. Það er ekki á vetur setjandi ef þetta heldur svona áfram.

En hversvegna hringdir þú? -Það er útaf þessari fáránlegu auglýsingu þarna í Sjónhorninu um daginn. Ég er nú bara að íhuga að fara í mál út af þessari vitleysu, þetta er bara árás og það um hábjartan djöfulsins dag.

Nú hvað er að? -Hvað er að!? Það var þarna auglýst laus íbúð. Ég sá strax að þetta var hús sem ég byggði 1973, orðið jú 40 ára gamalt en mér fannst þetta sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Þannig að ég fór á staðinn og kíkti á þetta og það var eins og ég hélt, helvítis vitleysa auðvitað.

Nú? -Já, hún var ekkert laus íbúðin, þarna var allt niðurneglt og pikkfast, varla hægt að opna glugga skal ég segja þér. Af hverju er fólk að auglýsa svona vitleysu, og hvað er að fólki þarna á Sjónhorninu að birta þetta bara athugasemdalaust, ég skil þetta ekki. Það er hreinlega vegið að heiðri manns sem húsasmíðameistara með svona... já bara kjaftæði. Laus íbúð, alveg fáheyrt!

En var ekki íbúðin til sölu eða leigu? -Það veit ég andskotann ekkert um.

Var það eitthvað fleira sem þú vildir koma á framfæri? -Nei, ég er búinn að koma þessu til skila held ég í bili þannig að ég bið að heilsa honum pabba þínum, já og mömmu, vertu sæll.... heyrðu heyrðu, jú það er eitt, þú hérna áttar þig á að strákarnir voru að grínast með þetta -fyrstur á staðinn og fyrstur heim-, ég er að sjálfsögðu síðastur heim, læsi á eftir mönnum og svona. Bara svo það sé á hreinu vinur. Blessaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir