Varð háð hágæða garni

Helgarut í fallegri peysu. MYND AÐSEND
Helgarut í fallegri peysu. MYND AÐSEND

Helgarut Hjartardóttir er fædd árið 1991 á Sauðárkróki móðir tveggja barna, þeirra Alexíu Nóttar og Baltasars Loka. Hún kemur úr stórum systkinahópi og er viss um að einhverjir kannist við hópinn af Jólamóti Molduxa sem haldið er ár hvert á annan í jólum en þau taka alltaf þátt í því. Helgarut er útskrifuð með BA í sálfræði og stefnir á að fara í klíníska barnasálfræði í náinni framtíð. „Mér finnst mjög mikilvægt að við séum við sjálf og að það sé jákvætt að við séum ekki öll eins. Ein fræg setning sem ég segi oft er “við erum öll skrítin á okkar hátt”. Ekkert skemmtilegra en að fá að vera maður sjálfur en ekki vera fastur í því að reyna að passa inn í einhverja fyrirfram ákveðna staðalímynd. Vil ég því reyna að efla börnin okkar og aðra í því að vera þau sjálf og vera stolt af því“. Helgarut kemst á flug þegar hún byrjar að tala um tilfinningar og heldur því fram að viðtalið gæti tekið aðra og lengri stefnu ef við ætlum að fara inn á þá braut en bætir því við að það sé ekki sjálfgefið að maður fái þá aðstoð sem maður þarf í uppvextinum til að læra inn á tilfinningarnar.

Helgurut er margt til lista lagt og ekki vantar metnaðinn í þessa ungu konu því hún opnaði verslun sem heitir því skemmtilega nafni Rendur í lok júní nú í sumar, vefverslunin www.rendur.is fór svo í loftið í júlí, en vinnan við heimasíðuna var komin á fullt í febrúar sama ár. „Verslunin er staðsett í verslunarrýminu í Eftirlæti og svo að sjálfsögðu á www.rendur.is.

Eftirlæti er staðsett í Aðalgötunni á Sauðárkróki, þangað er hægt að koma og klappa garninu, kaupa og eða bara skoða það á opnunartíma Eftirlætis. „Eins er ég sjálf þar alla miðvikudaga milli kl.17-19. og svo auglýsi ég það sér ef ég er á staðnum á öðrum tíma inná Instagram/Facebook. Ég get aðstoðað með val á garni og að umreikna í aðrar tegundir af garni eða prjónastærð. Einnig er hægt að koma bara til að spjalla og prjóna, það er alltaf gaman. Mér finnst líka rosalega gaman að sjá hvað þið gerið úr garninu sem er til sölu hjá mér“, segir Helgarut og bætir við að Eftirlæti sé einmitt í eigu elskulegrar systur hennar Ólínu.

Hvernig garn er þetta sem þú ert að selja? „Rendur selur einungis hágæða garn og aðra fylgihluti tengda prjónaskap. Við erum meðal annars með garn og tölur frá Isager, Bc garn, Kelbourne Woolens og skiptanlega hringprjóna frá Seeknit, sjón er sögu ríkari.

Einnig eru vörur frá Lille Kanin, Grums og På Stell til sölu hjá mér á heimasíðunni, eru auðvitað líka til sölu í Eftirlæti enda æðislegar vörur. Öll þessi merki stuðla að fair trade og mörg merkin eru með GOTS vottun, ýmsar vörur eða heilu verksmiðjurnar. Garnið og vörurnar eru endingargóðar, hugað er að umhverfinu, innihalda ekkert plast eða önnur gerviefni, einnig er hugað að velferð dýra og að vinnukjör verkafólks séu mannsæmandi. Isager og Bc garn eru dönsk merki, Kelbourne Woolens er bandarískt“, segir Helgarut.

Dreymdi að opna garnbúð á Sauðárkróki

Hvernig kom þetta til ? „Úff ég hef verið rosalega feimin með prjónaáhugamálið mitt, það er svo rosalega stórt. En það er algjör óþarfi að vera feiminn með það. Það er löngu vitað að það þurfi að bæta úrvalið af garni og hannyrðavörum hér á Sauðárkróki og var ég lengi búin að láta mig dreyma um að opna garnverslun hér. Ég varð eiginlega háð hágæðagarni eftir að ég fann muninn á að klæðast því og að klæðast superwash flík eða annarri sambærilegri, þar sem ekki er hugað vel að framleiðslunni á garninu, ég fann svo mikinn mun. Ég nenni bara ekkert að svitna undan einhverju sem ég er að prjóna. Það garn sem er húðað af plastefnum andar nefnilega ekkert svakalega vel ef það andar þá eitthvað. Þá var ekki aftur snúið með þá hugmynd að koma inn með hágæða garn og stækka því fjölbreytileikann hér á Íslandi á þeim vörum.“ Þetta er ekki gert á einum degi og var garnverslunin búin að vera í vinnslu í tvö ár áður en hún opnaði verslunina. „Undirbúningurinn hefur verið langur, til að mynda var Rendur, nafnið á versluninni, ákveðið ári áður en hún var opnuð. Stundum þarf ég aðeins að hægja á mér, þar sem mig dreymir mjög stórt en það er víst ekki hægt að gera allt strax“. Helgarut þakkar svo systur sinni Ólínu fyrir að hægja aðeins á sér.

Draumurinn er mikið stærri en staðan á versluninni er í dag en þetta er búin að vera mjög góð byrjun, sem ég hefði aldrei getað gert án Ólínu systur minnar sem tæmdi hillur í versluninni sinni til að koma garninu mínu fyrir og er ég henni ævinlega þakklát fyrir það. Fékk líka stuðning frá öllum mínum nánustu frá því ég þorði að segja þessa hugmynd upphátt.

Það hefur lengi vantað hágæða garn hingað á Sauðárkrók og stað sem hægt er að leita á til að fá aðstoð og leiðbeiningar. Með því að opna verslunina gaf það mér líka tækifæri til að efla þetta stóra prjónasamfélag sem er hér á Sauðárkróki. „Ég stofnaði Facebook hóp sem heitir Prjónað í Skagafirði og það voru strax komnir yfir 100 manns í hópinn. Ég veit að það eru mun fleiri að prjóna eða sinna annarri handavinnu hér í Skagafirði heldur en eru í hópnum. Hér með auglýsist að allt hannyrðafólk hér í Skagafirði, já og nærumhverfi, er velkomið að koma í hópinn þó svo að almennt séu mest auglýstir prjóna/hekl hittingar, en það er velkomið að taka hvaða handavinnu sem er með eða bara mæta upp á félagsskapinn.

Hver er handavinnusaga Helgurutar? „Ég er og var mikið fyrir að gera eitthvað með höndunum. Var í vali í saumum í efri bekkjum grunnskólans og fékk viðureknningu fyrir handmennt í 10. bekk. Eftir það valdi ég framhaldsskóla sem voru með saumaáfanga. Það fallegasta sem ég hef saumað er líklega gallajakkinn sem ég gerði í FVA. Ég fékk saumavél í 18 ára afmælisgjöf og saumaði alls konar heima hjá mér að gamni mínu, spiderman búninga (við Ólína), pils og alls konar. Var líka eitthvað að leika mér að prjóna án uppskrifta. En svo hætti ég alveg. Tók ekki upp prjónana aftur fyrr en 8-10 árum síðar eða árið 2017 og prjónaði teppi handa frænku. Ég prjónaði teppið tvisvar því ég var ekki nógu sátt með fyrstu útkomuna og rakti það upp. Ég er rosalega fljótfær og tók eftir því að ég hefði misskilið enskuna og prjónað óvart úr tveim þráðum en ekki einföldum þræði og bauð systur minni að ég gæti rakið teppið aftur upp og prjónað það í þriðja skiptið og þá stærra. Eftir það var eiginlega ekki aftur snúið og fór ég smám saman að prjóna öllum stundum (svona næstum). Var aðallega að prjóna á börnin í kringum mig og mín eigin. Síðan fór ég að prjóna meira á mig sjálfa árið 2021 og eftir það var ekki aftur snúið. Ástæðan fyrir því að ég fór að prjóna á mig sjálfa var sú að börnin tóku tímabil þar sem þau vildu ekki fara í prjónles en það er sem betur fer búið núna! Prjónaóskalistinn lengist bara og lengist. Núna í dag á ég sjálf fleiri en 10 prjónapeysur og er með þrennt á prjónunum á sjálfan mig. Er hvergi hætt. Prjónapeysur eru einum of þægilegar“.

Helgarut heldur svo áfram og segir okkur hvernig framtíðarpanið sé, því ekki vantar áhugann, draumana og drifkraftinn í þessa ungu konu. „Úff það er rosalega mikið sem mig langar að gera, vona að eftir einhver ár verði garnverslunin stærri og með aðstöðu til að koma, fá sér kaffi, setjast niður og prjóna alla daga. En svo er ég með nokkrar hugmyndir aðnámskeiðum og öðru til að efla prjónasamfélagið hér, þær eru í vinnslu. En bráðum verður tekið inn í verslunina nýtt merki en það er ennþá á smá byrjunarstigi og smá leyndó“.

Viðtalið birtist í 38.tölublaði Feykis

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir