Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi vestra 90% af landsmeðaltali

Úr skýrslu Byggðastofnunar. Myndin sýnir meðalatvinnutekjur 2008 og 2016 eftir svæðum á Norðurlandi vestra.
Úr skýrslu Byggðastofnunar. Myndin sýnir meðalatvinnutekjur 2008 og 2016 eftir svæðum á Norðurlandi vestra.

Heildaratvinnutekjur á landinu voru 9,7% hærri að raunvirði á árinu 2016 en þær voru árið 2008 en hafa verið lægri öll árin fram að því. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur á árunum 2008-2016 eftir atvinnugreinum og svæðum. Mestu atvinnutekjurnar voru í heilbrigðis- og félagsþjónustu, iðnaði og fræðslustarfsemi en mesta aukningin á tímabilinu varð í greinum er tengjast ferðaþjónustu, þ.e. gistingu og veitingum, flutningum og geymslu og leigu og sérhæfðri þjónustu. Mesti samdrátturinn varð hins vegar í fjármála- og vátryggingaþjónustu og mannvirkjagerð. Meðalatvinnutekjur voru hæstar á Austurlandi og þar næst kemur höfuðborgarsvæðið en lægstar eru þær á Norðurlandi vestra og á Suðurnesjum.

Heildaratvinnutekjur á Norðurlandi vestra jukust aðeins um rúm 4% á tímabilinu 2008-2016, þrátt fyrir að árin 2015 og 2016 hafi atvinnutekjur aukist um 6-7% hvort ár. Mestu atvinnutekjurnar voru greiddar í opinberri stjórnsýslu og fræðslustarfsemi en næst á eftir koma verslun, fisveiðar, heilbrigðis- og félagsþjónusta og iðnaður.

Á Norðurlandi vestra varð mesta aukningin í atvinnutekjum í landbúnaði, gistingu og veitingum, verslun og í fræðslustarfsemi. Hins vegar varð verulegur samdráttur í mannvirkjagerð og einnig varð nokkur samdráttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í fiskveiðum.

Meðal­at­vinnu­tekj­ur á Norður­landi vestra árið 2016 voru aðeins 90% af landsmeðaltali og er þar mik­ill mun­ur á Skaga­fjarðar­sýslu, þar sem meðal­at­vinnu­tekj­ur voru 95% af landsmeðaltali, og Húna­vatns­sýsl­um þar sem þær náðu aðeins 83%.

Opinber stjórnsýsla var stærsta atvinnugreinin árið 2016 í Húnavatnssýslum, mælt í atvinnutekjum en næst á eftir koma fræðslustarfsemi, fiskveiðar, iðnaður og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Í Skagafjarðarsýslu var fræðslustarfsemi stærst en næst á eftir komu verslun, opinber stjórnsýsla og þá fiskveiðar.

Skýrslu Byggðastofnunar má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir