Ungt fólk og sumarvinna

Þessa dagana eru nemendur í skólum landsins að ljúka vetrarstarfinu með einum eða öðrum hætti og stíga full eftirvæntingar út í vorið, skemmtilegt og viðburðaríkt sumar framundan eða hvað.   

Rík hefð er fyrir því að nemendur frá 14 ára aldri séu með einum eða öðrum hætti þátttakendur í atvinnulífinu og eru oftar en ekki mikilvægur hlekkur í atvinnukeðjunni.  Sveitarfélagið hefur um árabil boðið unglingum í 7 – 10 bekk vinnu hjá Vinnuskóla Sveitarfélagsins, þar er boðið upp á fjölbreytta vinnu og vinnuuppeldi t.d. er nemendum í 9 og 10 bekk gefinn kostur á að vinna hjá ýmsum stofnum sveitarfélagsins.  Einnig hafa nokkur fyrirtæki verið í samstarfi við vinnuskólann og boðið fram störf í samvinnu við Vinnuskólann. 

Unglingar frá 16 ára aldri hafa í gegnum árin haft vinnu á almenna vinnumarkaðnum hjá fyrirtækjum og stofnum innan Sveitarfélagsins og hafa vinnumál þeirra hingað til ekki verið með formlegum hætti á forræði eða ábyrgð sveitarfélagsins.

Nú bregður svo við að í könnun sem gerð var hjá 105 nemendum sveitarfélagsins í  Fjölbrautaskólanum í vor að allt að 45 þeirra voru ekki komin með sumarvinnu og voru vonlitlir með að það tækist.  Frístundasvið ásamt félags- og tómstundanefnd brugðust við þessu með því að hefja vinnu við að koma á verkefni til að bjóða 16 – 18 ára ungmennum í sveitarfélaginu að sækja um sumarvinnu.  Er um að ræða sérstakt átaksverkefni sem  ætlunin er að hefjist í júní, sótt hefur verið um styrk til félags- og tryggingamálaráðuneytis  og Lýðheilsustöðvar í þetta verkefni. 

Byggðaráð hefur tekið vel í það að tryggja fjármagn í þetta verkefni enda má segja að það sé forgangsmál að tryggja að þessi aldurshópur hafi  verðug verkefni til að vinna að á hverjum degi og séu virkir þátttakendur í samfélaginu.  Einnig er mikilvægt að 16 – 18 ára unglingar hafi möguleika á því að afla sér peninga til daglegra þarfa og ekki síst til þess að taka þátt í því að fjármagna skólagöngu næsta haust, ef ekki, kemur sú fjármögnun að fullum þunga á foreldra.  þekkt er að  atvinnuleysi yfir sumartímann leiði til  brottfalls úr námi.  Því er mikilvægt að tryggja virkni og vellíðan þessa aldurhóps í sumar og það gerum við með fyrrnefndu átaki.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, forseti sveitarstjórnar og skipar 1. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir