Að flytja í fámennið :: Áskorandapenni Ólína Sófusdóttir Laugarbakka

Það er sérstök tilfinning fyrir fólk að taka ákvörðun um að flytja frá öllu sem því er kært og það þekkir vel og vita ekki hvað bíður þess á áfangastað. Fyrir okkur var stórt skref tekið þegar við hjónin fluttum fyrir margt löngu frá Egilsstöðum til Noregs. Okkur leið mjög vel í Noregi, en vorum án fjölskyldunnar, sem öll var búsett áfram á Íslandi.

Þegar farið er að síga á seinni hluta starfsævinnar, er eðlilegt að fólk hugsi sinn gang, hvað það vilji og finni út hvað er því fyrir bestu. Það var alltaf skýrt í okkar huga að verða gömul á Íslandi og því tímabært að fara að huga að hvar við vildum setja okkur niður. Börnin okkar þrjú eru búsett í þremur landshlutum, svo þá þurftum við að finna „rétta“ landshlutann til búsetu. Eftir miklar vangaveltur og umræður, ákváðum við að Húnaþing vestra væri rétt staðsetning fyrir ævikvöldið.

Þar sem við erum enn virk í atvinnulífinu, var það góð tilfinning að geta lagt okkar af mörkum til samfélagsins með vinnuframlagi og á sama tíma að kynnast fólki í gegnum starf okkar.

Eftir að hafa búið í Noregi vorum við orðin vön góðum og notalegum vetrum með jafnvægi í veðrinu. Þar sem snjóaði í logni og sá snjór hélst að jafnaði langt fram í mars. Við tók vor með mildu og góðu veðri og svo sumar með sínum hlýindum. Þessi fyrsti vetur okkar hér hefur ekki verið sérstaklega mildur eða rólegur svo vægt sé til orða tekið og oft hef ég hugsað um hvað við séum búin að koma okkur í. Það hefði verið betra að halda kyrru fyrir þar sem við bjuggum áður, en illviðri gleymast þegar sól skín í heiði.

Það er vissulega erfitt að setjast að í jafn fámennu samfélagi og Laugarbakki er, allir vita hver þú ert og hvað þú ert að sýsla, en það mikilvæga er samhygðin og samkenndin með náunganum sem við höfum svo sannarlega fengið að njóta og upplifa enn sem komið er. Ég horfi björtum augum til framtíðar í Húnaþingi vestra, því ég er þess fullviss að hér eigum við eftir að hafa það gott á okkar ævikvöldi.

Ég skora á Þorbjörgu Ingu Ásbjörnsdóttur að koma með pistil í Feyki.

Áður birst í 20. tbl.  Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir