Þakklát fyrir gott bakland
Bríet Guðmundsdóttir er í sambúð með Ísaki Óla Traustasyni sem er partur af þjálfarateyminu. Bríet er dóttir hjónanna Guðbjargar og Guðmundar, eða Guggu og Binna eins og þau eru oftast kölluð. Fædd og uppalin á Sauðárkróki. Bríet og Ísak eiga tvö börn þau Maron Helga, þriggja ára, og Ínu Björgu, sjö mánaða. Áður en hún fór í fæðingarorlof var hún að vinna sem stuðningsfulltrúi í Árskóla. Eftir stúdentspróf frá FNV fór hún í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og eftir það lærði hún ljósmyndun í Tækniskólanum og útskrifaðist þaðan árið 2020. „Ég hef gaman af því að taka myndir, alls konar útivist, gönguferðum, fjallgöngum, fara út að hlaupa og fara á skíði svo eitthvað sé nefnt. En svo þarf ég að fara að dusta rykið af handavinnunni, hún hefur setið á hakanum síðustu ár,“ segir Bríet.
