Félagsleg samheldni eða firring? | Álfhildur Leifsdóttir skrifar
Félagsheimilin í Skagafirði eru ekki bara hús, þau eru minnisvarðar um samstöðu, sjálfboðavinnu, vilja og þrótt samfélagsins. Þau voru byggð upp af fólkinu fyrir fólkið. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti sölu á félagsheimilunum í Rípurhreppi og Skagaseli nýverið. Íbúar í Hegranesi hafa sýnt harða andstöðu við söluna, enda er þar vaxandi samfélag sem vill halda áfram að nota húsið sem fyrirrennarar þeirra byggðu í sjálfboðavinnu til að gleðjast og syrgja.
Eftir þessa andstöðu íbúa og tillögu VG og óháðra um að falla frá áformum um sölu, var ákveðið af meirihluta og Byggðalista að auglýsa húsin til afnota, með kvöðum sem aldrei hafa áður sést, skilyrði um að þeir sem húsin hafa til afnota greiði 1,5% af brunabótamati eignanna í viðhaldskostnað árlega.
Raunhæft eða rugl?
Á fundi byggðaráðs miðvikudaginn 21. maí lagði undirrituð sem fulltrúi VG og óháðra fram fyrirspurn varðandi auglýsingu um leigu félagsheimilanna Skagasel og í Rípurhreppi, sérstaklega um það skilyrði að árlegur viðhaldskostnað skuli nema 1,5% af brunabótamati, viðmið sem ekki hefur áður verið notað við útleigu eigna sveitarfélagsins. Brunabótamat er mat á því hvað það myndi kosta að endurbyggja fasteign frá grunni, til dæmis ef hún myndi brenna. Þetta mat er fyrst og fremst notað til að ákvarða tryggingaupphæð brunatrygginga og hefur enga beina tengingu við markaðsverð eða fasteignamat. Því vekur það furðu að slíkt mat sé notað sem viðmið fyrir árlegan viðhaldskostnað fasteignar. Það getur ekki talist eðlilegt að byggja reglur um daglegt viðhald á kostnaði við að endurreisa hús í heild sinni.
Sé 1,5% af brunabótamati reiknað af þeim félagsheimilum sem eru í eigu sveitarfélagsins eftir sameiningar, ásamt menningarhúsinu Miðgarði eru tölurnar eftirfarandi:
Melsgil: 1.103.250 kr.
Ljósheimar: 2.744.250 kr.
Félagsheimili Rípurhrepps: 2.021.250 kr.
Árgarður: 5.164.050 kr.
Höfðaborg: 7.452.750 kr.
Ketilás: 2.121.150 kr.
Miðgarður: 17.556.000 kr.
Skagasel: 2.298.000 kr.
Bifröst: 3.825.000 kr.
Héðinsminni: 1.683.750 kr.
Skilyrði um árlegan viðhaldskostnað sem nemur 1,5% af brunabótamati er ákveðið af kjörnum fulltrúum meirihluta og Byggðalista í sveitarstjórn, með þeim rökstuðningi að KPMG hafi ráðlagt það. Skilyrði sem kemur til með að gera rekstur húsanna afar þungan eins og sjá má af ofangreindum tölum, því við þær bætist svo kostnaður við tryggingar, fasteignaskatts, rafmagn og hiti ásamt hefðbundum rekstrarkostnaði eins og sorphirða og leyfisveitingar. Hefði sú leið verið farin að setja frekar skilyrði um viðhaldskostnað sem samsvarar 1,5% af fasteignamati í stað brunabótamats væri upphæð félagsheimilis Rípurhrepps 378.000 kr. á ári í stað 2.021.250 kr. og 423.821 kr. í stað 2.298.000 kr. í Skagaseli svo dæmi séu tekin. Að reikna 1 - 1,5% af fasteignamati í árlegan viðhaldskostnað hefur gjarna verið þumalputtaregla húsfélaga ef ekki er hreinlega farið eftir raunverulegum viðhaldskostnaði frá ári til árs.
Meirihluti og Byggðalisti halda því fram í svörum sínum að markmiðið með þessum skilyrðum sé að „koma til móts við hóp sem var andvígur sölu“ með því að bjóða upp á leiguleið í stað beinnar sölu. En þegar litið er til þess hve háar álögur eru settar á mögulega rekstraraðila og engin raunveruleg tilraun er gerð til samráðs við þá sem vildu koma að málum, blasir við önnur mynd. Þetta er ekki tilraun til að koma til móts við íbúana, heldur leið til að þvinga fram sölu með óraunhæfum skilyrðum.
Meirihluti ásamt Byggðalista halda því fram að með þessum skilmálum sitji allir við „sama borð“. Að bera saman félagsheimili út í sveitum við skrifstofuhúsnæði í miðbæ Sauðárkróks eins og vísað er til í svörum meirihluta og Byggðalista hér er einmitt það sem mismunun felst í. Má þá enn einu sinni minna á að í húsnæði sveitarfélagsins við Aðalgötu 21 hefur einkafyrirtæki fengið samning um leigufría aðstöðu til 15 ára, 50% afslátt á leigu næstu 15 árin á eftir og allt viðhald af eigninni er greitt af sveitarfélaginu. Hlaupa þær viðhaldstölur á hundruðum milljóna síðustu ár. Er ekki tímabært að rifta þeim samningi og setja þá eign undir þessa sömu skilmála?
Afhending með skilyrðum eða þvinguð sala?
Í stað þess að viðhalda samfélagslegu eignarhaldi félagsheimilanna með stuðningi og raunhæfum rekstrarskilyrðum, virðist stefna meirihlutans og Byggðalista miða að því að losa sig við þessar eignir, fyrst með auglýsingu um leigu með óraunhæfum skilmálum, til að hægt sé að selja í beinu framhaldi. Það er óafturkræf aðgerð sem nokkrir kjörnir fulltrúar taka í óþökk nærsamfélagsins. Og að auglýsing þess efnis sé sett í loftið á háannatíma bændasamfélagsins er virkilega taktlaust.
Það sem þarf í Skagafirði er samtal sem sameinar. Við eigum að treysta íbúunum til að halda utan um sín félagsheimili sé vilji til þess, ekki gera þeim ókleift að standa undir rekstrinum með kvöðum og mismunun sem leiðir óhjákvæmilega til þvingaðrar sölu. Rekstur félagsheimilanna ætti að vera á félagslegum grunni en ekki á forsendum markaðslögmála.
Hver er framtíðarsýn meirihluta og Byggðalista hvað varðar blómlega menningu og félagslíf um allan Skagafjörð?
Álfhildur Leifsdóttir
oddviti VG og óháðra