Breytt þjónusta – lækkað verð | Frá Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar
Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar hefur oft á liðnum mánuðum fjallað um rekstur og stöðu sorpmála í Skagafirði. Bæði vegna þess að málaflokkurinn er stór, en einnig vegna mikilla breytinga sem gerðar voru á sorpsöfnunarkerfinu í Skagafirði, eftir að Alþingi breytti lögum um meðhöndlun úrgangs. Í kjölfar leiðbeinandi könnunar meðal íbúa í dreifbýli í júlí 2022, var ákveðið af sveitarstjórn að sorp skyldi sótt á öll heimili í Skagafirði frá og með áramótum 2023.
Það er upplifun okkar að mikill meirihluta íbúa í Skagafirði sé ánægður með þjónustuna í dag og vilji ekki hverfa frá því að tunnur séu tæmdar við hvert heimili. Verkefni okkar er að fylgjast vel með rekstrinum og vega saman þjónustustigið og kostnaðinn með það að markmiði að þjónustan sé áfram góð en um leið eins hagkvæm og kostur er.
Flottur árangur
Frá því að nýja kerfið tók gildi hefur sorp til urðunar frá heimilum minnkað samhliða því að magn af öðru efni sem flokkað er frá hefur vaxið. Á árinu 2024 fóru um 45% af því sorpi sem kom frá heimilunum til urðunar, en 55% í endurnýtingu eða endurvinnslu. Var það 5% yfir settum markmiðum Umhverfisstofnunar fyrir íslensk heimili. Í ár stefnir í að þessar tölur verði svipaðar eða betri fyrir heimili í Skagafirði. Það undirstrikar góðan árangur og mikinn vilja íbúa til flokkunar.
Breytingar árið 2026
Á liðnum mánuðum hefur verið unnið í að greina ýmsa kostnaðarliði við söfnun og afsetningu á sorpi frá heimilum. Af þeim tölum má sjá að kostnaður við lífræna úrganginn er mjög hár og þá ekki hvað síst í dreifbýlinu. Eftir samráð við forsvarsmenn Íslenska gámafélagsins um leiðir til hagræðingar var ákveðið að breyta söfnunarfyrirkomulaginu fyrir árið 2026. Nýtt fyrirkomulag verður tekið upp í dreifbýli. Lífræna tunnan (120 lítra) og tunnan sem tekur sorp til urðunar verða tæmdar á fjögurra vikna fresti. Það þýðir lengingu úr tveimur vikum í fjórar á lífrænu tunnunni en stytting úr 6 vikum í fjórar á tunnunni. Þessar tvær tunnur verða því tæmdar saman en pappa- og plasttunnur verða áfram tæmdar á 6 vikna fresti. Með þessu móti er hægt að fækka ferðum um dreifbýlið um 4 ferðir á ári og spara þannig umtalsverðan kostnað. Í þéttbýlisstöðunum öllum, Sauðárkróki, Hofsós, Varmahlíð og Steinstöðum þar sem lífræna tunnan er 35 lítrar verður óbreytt söfnunarkerfi.
Gjaldskráin lækkar
Þessi hagræðing, ásamt því að góð flokkun á sorpi er að skila lægri rekstrarkostnaði, leiðir til þess að hægt er að lækka gjaldskrá sorphirðu um rúm 9% (4.000 krónur á heimili) á milli áranna 2025 og 2026. Það eru önnur áramótin í röð sem gjaldskrá sorphirðu lækkar á íbúa vegna aukinnar flokkunar og hagræðingar í þessum málaflokki og verður það að teljast góður árangur til hagræðingar fyrir heimilin. Áfram verður sama gjald lagt á íbúðarhús, hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli, en þannig jöfnun við meðal annars búsetukjör íbúa innan sveitarfélagsins.
Verkefnið áfram
Þó flokkun á sorpi hafi gengið vonum framar frá því breytingin tók gildi 2023 er verkefnið rétt að byrja. Heimilin þurfa að halda áfram að auka flokkun og ekki síður þurfa fyrirtækin að gera átak í sömu efnum. Sorp til urðunar frá fyrirtækjum hefur ekki minnkað með eins jákvæðum hætti og sorp frá heimilum. Áfram þarf jafnframt að skoða frekari leiðir til hagræðingar í rekstri málaflokksins þannig að flokkun aukist en um leið að rekstur kerfisins sé eins hagkvæmur og kostur er. Á borðinu eru nú þegar nokkrar hugmyndir til hagræðingar sem þarf að vinna áfram og má þar nefna söfnun með þriggja hólfa bíl sem tæmdi þá þrjár tunnur í hverri ferð en í því gæti falist enn frekari fækkun ferða sem myndi draga úr kostnaði. Einnig þarf að skoða áfram hugmyndir um jarðgerð lífræna úrgangsins heima við en flestir geta sammælst um það að langar keyrslur með lífrænan úrgang eru bæði kostnaðarsamar og óumhverfisvænar. Jarðgerð gæti því verið mjög hagkvæmur kostur fyrir íbúa og umhverfið.
Að lokum þökkum við öllum íbúum Skagafjarðar fyrir mikinn metnað, samvinnu og góðan árangur í flokkun sorps frá heimilum í héraðinu.
Einar E. Einarsson
Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir
Sveinn F. Úlfarsson
Hildur Þóra Magnúsdóttir
